Innlent

Gæludýr í pössun gegn um netið

viktoría hermannsdóttir skrifar
Andrea Gunnarsdóttir, Davíð Karl Wiium, Berglind Dúna Sigurðardóttir, Aníta Arnþórsdóttir, Elfa Björnsdóttir, Axel Ingi Kristinsson og hundurinn Askur.
Andrea Gunnarsdóttir, Davíð Karl Wiium, Berglind Dúna Sigurðardóttir, Aníta Arnþórsdóttir, Elfa Björnsdóttir, Axel Ingi Kristinsson og hundurinn Askur. Fréttablaðið/Andri
„Okkur fannst vanta þjónustu sem sameinar úrræði fyrir gæludýraeigendur þegar kemur að pössun í lengri eða skemmri tíma,“ segir Axel Ingi Kristinsson.

Ásamt fimm samnemendum sínum í nýsköpunaráfanga í Háskólanum í Reykjavík hefur Axel unnið að því að þróa heimasíðu sem ber nafnið PetMe.

„Þetta byggir á því að gæludýraeigendur sem eru til dæmis að fara í frí geta nýtt sér síðuna og fundið þar fólk sem er tilbúið til þess að taka að sér dýrin á meðan. Það yrði einnig í boði að fólk gæti komið heim til annarra og gefið kettinum til dæmis að borða eða fara í göngutúra með hunda reglulega,“ segir Axel.

Hugmyndin er í anda vefsíðna á borð við AirBnb og Uber nema það snýr að gæludýrum. Fólk ákveður sjálft gjaldið sem það tekur fyrir þjónustuna.

Axel segir viðbrögðin við hugmyndinni góð, bæði frá gæludýraeigendum og dýraunnendum, sem myndu vilja taka að sér dýr. Þau telji markað fyrir slíkt úrræði, bæði hérlendis og erlendis.

„Við gerðum markaðsúttekt þar sem við ræddum við fleiri hundruð manns. Þetta er líka persónulegri þjónusta en er í boði fyrir dýr núna á dýrahótelum.“

Til þess að tryggja gæði þjónustunnar þá yrði síðan byggð upp á þann hátt að notendur myndu gefa einkunnir.

„Eigendur og veitendur þjónustunnar gefa hver öðrum einkunn eftir að viðskiptum lýkur og umsögn sem eykur hvatann til þess að standa sig vel,“ segir Axel.

Hópurinn vonast til að fá fjárfesta með sér svo verkefnið geti orðið að veruleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×