Innlent

Már útskýrði endurreisnina fyrir Írum

jón hákon halldórsson skrifar
Már Guðmundsson
Már Guðmundsson Vísir
Misskilnings hefur gætt varðandi framkvæmdina á neyðarlögunum, sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í ræðu sinni sem hann hélt á ráðstefnu írskrar stofnunar um alþjóðleg og evrópsk mál.

Á ráðstefnunni á Írlandi ræddi Már um fjármálakreppuna og eftirleik hennar hér á landi, einnig um það hvaða lærdóm mætti draga af reynslu Íslendinga.

„Það hefur verið fullyrt að Íslendingar hafi látið bankakerfið hrynja, með að því er virðist ágætri niðurstöðu, og að önnur ríki hefðu átt að gera það sama. Staðreyndin er hins vegar sú að Íslendingar héldu innlenda hluta bankakerfisins gangandi og það með töluverðum tilkostnaði; að öðrum kosti hefði niðurstaðan verið skelfileg.

Sumir hafa fullyrt að bankarnir hafi verið þjóðnýttir. Það voru þeir ekki. Hinir föllnu einkabankar eru enn einkafyrirtæki í slitameðferð og lúta lögum þar um. Ríkissjóður fjármagnaði að fullu einn af nýju bönkunum. Hinir tveir nýju bankarnir eru einkabankar sem eru að mestu í eigu gömlu bankanna. Því hefur líka verið haldið fram að Ísland hafi farið í greiðsluþrot og komist upp með það. Þvert á móti var greiðslugeta ríkisins varin og allar kröfur hafa verið greiddar á réttum tíma,“ segir Már.

Þá hafi lánshæfismatsfyrirtækin Moody's og S&P haldið ríkissjóði í fjárfestingarflokki í lánshæfismati sínu. Íslenska ríkið hafi því getað sótt fjármagn á alþjóðamarkaði tvisvar eftir að kreppan skall á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×