Innlent

Tafirnar bitna á sakborningum

fanney birna jónsdóttir skrifar
Erlendur Þór Gunnarsson.
Erlendur Þór Gunnarsson.
„Eðlilega hefur framvinda þessa máls verið afar bagaleg, bæði fyrir minn skjólstæðing og brotaþola, sem og aðra sakborninga. Nú er að verða ár liðið frá því að þetta kom upp og í raun hefur ekkert heyrst af þessu máli frá því í júní 2014 þegar tekin var skýrsla af skjólstæðingi mínum. Það hefur enginn hag af því að sakamál hafi ekki faglega framvindu í kerfinu,“ segir Erlendur Þór Gunnarsson, hæstaréttarlögmaður og verjandi eins sakborninga í hópnauðgunarmáli frá því fyrir um ári.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að málið, þar sem fimm piltar voru kærðir fyrir hópnauðgun í kjölfar þess að sextán ára stúlka lagði fram kæru á hendur þeim fyrir nauðgun í samkvæmi í Breiðholti, sé enn til skoðunar hjá ríkissaksóknara um ári eftir atvikið.

Meðal gagna sem stúlkan lagði fram er myndband af atvikinu. Vitað er að myndbandið fór í dreifingu á netinu auk þess sem allir aðilar málsins voru nafngreindir á samfélagsmiðlum.

Erlendur vonast til að eitthvað fari að gerast í málinu fljótlega. „Við vitum þó að álagið hjá Ríkissaksóknara er of mikið en þar starfar mikið af góðu fólki og því skulum við leyfa okkur að vona að þættir þessa máls taki að skýrast á næstu vikum.“

Páll Kristjánsson, verjandi annars sakbornings, tekur í sama streng. „Ég er ítrekað búinn að kalla eftir upplýsingum um stöðu málsins en engar fengið. Maður veltir því fyrir sér hvort sakborningar eigi að líða fyrir þessar tafir, þeir hafa ákveðin réttindi líka. Er eðlilegt að þessi töf bitni á þeim? Biðin er verst fyrir þá,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×