Innlent

Skortur á íbúðum er farinn að hamla vexti

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson Vísir
Íbúðaskortur er farinn að hamla vexti höfuðborgarsvæðisins, en um síðustu áramót vantaði 1.200 íbúðir á húsnæðismarkaðinn. Þetta kemur fram í Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2015-2018 sem kynnt var sveitarstjórnarfólki á föstudag. Þar kemur einnig fram að uppbygging hefur verið hægari hjá sveitarfélögunum en vonast var til.

Þróunaráætlunin er hluti af vinnu við Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. „Ætla má að uppbygging íbúða verði heldur hægari en sveitarfélögin gera ráð fyrir enda gætir nokkurrar bjartsýni með fjölda íbúða sem fara í byggingu á árunum 2015 og 2016,“ segir í áætluninni.

Bryndís Haraldsdóttir
Fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu er hægari en á Suðurnesjum, en þar var hún 2,1 prósent árið 2014. Á höfuðborgarsvæðinu er hún 1,2 prósent á sama tíma, en aðeins 0,5 prósent í Reykjavík sjálfri. „Það hefur verið þannig frá 1960 að vaxtarhraðinn í Reykjavík hefur verið aðeins minni heldur en hjá nágrannasveitarfélögunum og núna virðist það aftur vera að gerast varðandi höfuðborgarsvæðið í heild og næstu nágranna, að það er heldur meiri hraði,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Hann segir ekki bara verða að mæta venjulegri eftirspurn heldur hafi þörfin hlaðist upp. „Við erum í skuld gagnvart árunum þegar allt var í frosti eftir hrun, þannig að það vantar fleiri íbúðir. Það er ástæðan fyrir því að við í Reykjavík og önnur sveitarfélög líka erum að leggja áherslu á að hraða uppbyggingu.“

Bryndís Haraldsdóttir, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar, segir byggingu nýrra íbúða hafa farið hægar af stað eftir hrun en vonast var eftir. Að einhverju leyti skýrist það af því að fólk, sérstaklega ungt fólk, eigi í erfiðleikum með fjármögnun.

„Ég ímynda mér að það sé einhver smá flöskuháls í fjármögnunarmálum. Það fari því allt af stað ef það verður leyst með einhverjum hætti að ungt fólk geti tekið lán fyrir fyrstu íbúðinni sinni.“

Dagur segir skilaboðin vera skýr: „Nú þurfa bara allir að átta sig á því að svona er staðan og það þarf að byggja þessar íbúðir og það er ekki eftir neinu að bíða með það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×