Skoðun

Um búsetuúrræði fatlaðs fólks – erum við á réttri leið?

Jón Rúnar Gíslason skrifar
Það er að mínu viti algjör nauðsyn að geta boðið fötluðu fólki upp á búsetuúrræði sem henta hverjum og einum. Margir aðhyllast þá hugmyndafræði að heillavænlegast sé að útrýma herbergjasambýlum og koma skuli öllum í sjálfstæða búsetu. Þar búa einstaklingar einir í sinni íbúð og ekkert sameiginlegt rými er til staðar. Síðan er það fyrst og síðast spurning um fjármuni hve margir starfsmenn aðstoða íbúa, stundum einn á einn, einn á tvo eða þrjá, það er önnur saga. Svo sannarlega gott og mikið framfaraskref í þjónustu við fatlaða og enginn vafi að þetta úrræði hentar ákveðnum hluta fatlaðs fólks.

Hér komum við að lykilatriði í umræðunni. Þetta úrræði hentar engan veginn öllum og það sem meira er, getur það beinlínis reynst skaðlegt sumum einstaklingum. Við verðum að hefja umræðuna upp úr því að vera endalaust að velta fyrir okkur hvað líti best út á blaði og hvað líti best út út á við.

Herbergjasambýlin eru fyrir mörgum úrelt fyrirkomulag og ekki fötluðum samboðin. Þeir sömu kunna að halda því fram að í framtíðinni hristi menn höfuðið yfir þeirri staðreynd að þetta úrræði skuli yfirhöfuð hafa verið við lýði. Nú þegar hefur Garðabær ákveðið að nýta ekki þau pláss sem losna á herbergjasambýlum sveitarfélagsins og mun því þetta búsetuform brátt heyra sögunni til þar í bæ. Margir lofsama þessa ákvörðun, segja þetta rétta skrefið í hagsmunabaráttu fatlaðs fólks. Ég segi hægjum á okkur. Engan sýndarleik. Hvernig er daglegt líf innan þessara búsetuúrræða í raun og veru? Hér verð ég að undirstrika aftur að eitt úrræði hentar ekki öllum og maður skal aldrei alhæfa.

Með öllu óboðlegt

Ég ætla að taka raunverulegt dæmi. Fyrir nokkrum árum var fatlaður maður á besta aldri tekinn úr því búsetuúrræði sem hann bjó í og hann fluttur í sína eigin íbúð. Þóttu þetta mikil vatnaskil í lífi þessa manns. Þeir fagaðilar sem stóðu á bak við þennan flutning voru eflaust sannfærðir um að þarna hafi þeir haft hagsmuni mannsins í fyrirrúmi, enda leit þetta afskaplega fallega út - séð utan frá. Hver var raunveruleikinn? Þessi maður bjó við mikla félagslega einangrun og persónulegri umhirðu var mjög ábótavant. Í hans tilfelli var þetta búsetuform með öllu óboðlegt og algjörlega úr takti við raunveruleikann.

Nánustu aðstandendur voru mikið fegnir þeirri stund þegar hann losnaði úr prísundinni. Hann fékk loks úthlutað herbergi á fallegu sambýli í Hafnarfirði. Þar hitti ég hann í fyrsta sinn. Ég er sannfærður um að á sambýlinu hafi hann átt ein sín bestu ár og hann naut innilega samverunnar við aðra íbúa heimilisins og nálægðarinnar við starfsmenn. Það gleður mig óendanlega að hann hafi eytt sínum síðustu æviárum hamingjusamur með það búsetuúrræði sem hann bjó við og að hans félagsskapur var fólk en ekki málningin á veggjunum. Saga þessa manns er svo sannarlega áminning til okkar sem störfum við málefni fatlaðs fólks.

Við megum ekki láta stjórnast af því hvað þykir flott og fínt – eða réttara sagt hvað við ályktum að sé flott og fínt.

Raunveruleikinn er sá að margir búa við fötlun sem gerir það að verkum að þeim hentar engan veginn að búa einir í sinni íbúð. Herbergjasambýli er svo sannarlega góður kostur fyrir marga fatlaða einstaklinga en þar ríkir ákveðin nálægð milli íbúa og starfsmanna sem ég veit fyrir víst að íbúar sambýlanna njóta. Það er engin skömm að því. Hættum að stjórnast af ímynduðu stolti og setjum hagsmuni einstaklinganna í fyrsta sæti. Stöndum vörð um herbergjasambýlin.

Höfundur er sálfræðimenntaður og starfsmaður á sambýli og íbúðakjarna fyrir fatlaða.

Hefurðu sögu að segja eða skoðun að deila? Ef svo er sendu okkur grein ásamt mynd á netfangið ritstjorn(hja)visir.is




Skoðun

Sjá meira


×