Fótbolti

Real í hefndarhug

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Fréttablaðið/Getty
Það verður spennuþrunginn Madridar-slagur í kvöld þegar átta liða úrslit Meistaradeildarinnar hefjast í kvöld með fyrri leikjum í tveimur viðureignum.

Spænsku nágrannaliðin Atlético Madrid og Real Madrid mætast þá á heimavelli Atlético en það eru bara ellefu mánuðir liðnir frá því að þessi tvö félög mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Atlético komst í 1-0 í fyrri hálfleik í úrslitaleiknum og var yfir fram í uppbótartíma. Sergio Ramos tryggði Real framlengingu þegar hann jafnaði á þriðju mínútu uppbótartímans og Real-liðið skoraði síðan þrjú mörk í framlengingunni og tryggði sér tíunda Evróputitil sinn.

Real-menn eru í hefndarhug eftir niðurlægjandi 4-0 tap á móti Atlético í spænsku deildinni í febrúar. Sergio Ramos, Pepe, Marcelo, Luka Modric og James Rodriguez misstu allir af þeim leik. „Við komum inn í þennan leik í góðum gír. Það er ekki hægt að bera þetta lið hjá okkur saman við liðið í febrúar. Nú eru allir orðnir heilir, liðið er ferskt og við getum spilað á miklu tempói,“ sagði Carlo Ancelotti, þjálfari Real.

„Síðasti leikur mun samt hjálpa okkur að mæta klárir. Þetta verður samt allt annar leikur en erfiður eins og allir leikir við Atlético,“ sagði Ancelotti. Hann býst við að spennustigið verði mjög hátt.

Atlético og Real hafa alls mæst sex sinnum frá því í úrslitaleiknum síðasta vor og Real hefur ekki náð að vinna einn leik. Atlético hefur unnið fjóra og tveir hafa endað með jafntefli. Markatalan er 12-4 Atlético í hag.

Stuðningsmenn Atlético munu láta vel í sér heyra á Vicente Calderon-vellinum í kvöld en þeir hafa reynst liðinu mikill styrkur í tíð Diego Simeone. Liðið verður örugglega ákaft stutt í þessum mikilvæga leik sem hefst klukkan 18.45 í kvöld og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Hinn leikur kvöldsins er á milli Juventus og Arsenal-bananna í Mónakó en leikurinn fer fram á heimavelli Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×