Skoðun

Apríl – alþjóðlegur mánuður gegn ofbeldi á börnum

Sigríður Björnsdóttir skrifar
Apríl er alþjóðlegur mánuður gegn ofbeldi á börnum. Þennan mánuð og alla aðra mánuði ársins hvetur Blátt áfram einstaklinga og félagasamtök til að taka þátt í að gera Ísland að betri stað fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Það er hægt að gera með því að tryggja að foreldrar hafi þá þekkingu, hæfileika og bjargir sem þeir þurfa til að vernda börn sín. Í sameiningu getum við stuðlað að góðri félagslegri og tilfinningalegri líðan barna og komið í veg fyrir vanrækslu innan fjölskyldna og samfélagsins.

Blátt áfram er forvarnarverkefni gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum og vill með auglýsingum því tengdum vekja athygli á málaflokknum. Auglýsingar verða áberandi í fjölmiðlum, á netmiðlum og í strætisvögnum Strætó bs. í boði þeirra allan aprílmánuð.

Samtökin bjóða einnig upp á kynningar á fræðsluefni félagsins fyrir foreldra og aðra uppalendur. Það efni sem samtökin hafa upp á að bjóða er t.d. nýútkomin foreldrahandbók og einnig annað efni sem auðveldar þeim að ræða við börn sín.Rannsóknir sýna að þegar foreldrar hafa sex varnarþætti til staðar, minnkar hættan á vanrækslu og misnotkun og stuðningur við börn, unglinga og fjölskyldu eykst. Þessir sex þættir eru:

Uppeldi og tengsl

Þekking foreldra á uppeldi og þroska barna

Seigla foreldra

Félagslegt tengslanet

Stuðningur fyrir foreldra

Félags- og tilfinningalegt þroskaferli barna

Með auglýsingum félagsins í vögnum Strætó bs., í boði þeirra og á vef félagsins í apríl viljum við minna á hversu erfitt það getur verið fyrir einstakling að stíga fram og segja frá ofbeldi.

Þegar einstaklingur segir frá er hann oft búinn að vera að velta því fyrir sér í langan tíma. Því miður þurfa börn, unglingar og fullorðnir einstaklingar ósjaldan að segja frá í fleiri en eitt skipti áður en þeim er trúað. Samfélagið sem við búum í vill og er að taka harðar á kynferðisbrotamálum, en á sama tíma eigum við erfitt með að trúa einstaklingi sem stígur fram og segir frá. Með það í huga þurfum við að endurskoða viðhorf okkar til einstaklinga sem leita sér hjálpar og er ekki trúað.

Hvað ætlar þú að gera þegar barn, unglingur eða fullorðinn einstaklingur segir þér frá?




Skoðun

Sjá meira


×