Skoðun

Lykillinn að velgengninni er beint fyrir framan…

Rúna Magnúsdóttir skrifar
Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi í nær áratug að fá að vinna með framsæknu fólki í atvinnulífinu á alþjóðamarkaði. Þetta fólk það sameiginlegt að á einhverjum tímapunkti í lífi sínu hefur það áttað sig á því að það vildi þekkja betur þá guðsgjöf sem það fékk í vöggugjöf. Ég kalla það að þekkja sinn X-faktor. Sína eiginleika, hæfileika, kunnáttu, styrkleika. Ég fæ daglega að sjá hversu magnað það er að sjá fólk takast á við áskoranir dagsins með því að losa um ónotaða hæfileika og vinna meira með það sem það hefur nú þegar til staðar.

Tækifærin sem bíða eftir þínum X-faktor

Þú mátt alveg kalla mig „Bjartsýnu Bínu“ þegar ég segi: „Ef þú veist hver er þinn X-faktor og hvað aðgreinir þig frá öðrum og getur komið því á framfæri skýrt og skorinort“ þá bíður heilt alþjóðasamfélag eftir þér.

Hvað á ég við? Jú, í dag er áætlað að rúmlega tveir milljarðar manna séu tengdir internetinu eða hafi aðgang að því. Spekúlantar meta það svo að á næstu 2-3 árum bætist aðrir tveir milljarðar manna þar inn. Samfélagsmiðlar s.s. LinkedIn, Twitter, Instagram eða Facebook tengja þig nú þegar á ógnarhraða við fólk og fyrirtæki úti um allan heim. Síður á borð við Fiverr.com, Freelancer.com eða Craigslist.com sérhæfa sig í að tengja daglega þúsundir VERKEFNA við SÉRFRÆÐINGA. Sérfræðingurinn gæti verið ÞÚ. Vinnustaðurinn þinn gæti verið fartölvan þín.

Hér skiptir máli að þú þekkir vel þinn X-faktor, þína eigin sérþekkingu, kunnáttu og styrkleika og getir komið þinni sérstöðu skýrt og skorinort á framfæri.

Hvað stoppar flesta?

Ég meina, þetta hljómar frekar einfalt. Þú þarft BARA að vita hvað þú vilt. BARA að vita af hverju þú vilt hafa meira af í lífi og starfi. BARA að vita hvað gerir þig sérstaka(n). BARA kunna að segja öðrum hver þinn X-FAKTOR er án þess að roðna, fara í algjöran hnút eða stama af óöryggi. 

Það sem virðist stoppa flest okkar er einhvers konar sjálfsblinda. Við sjáum einfaldlega ekki hvað er sérstakt við okkur – okkar X-faktor.

Vilt þú staðsetja þig enn betur á starfsmarkaði, starfa við það sem þú elskar og gera það af meira sjálfsöryggi? Leitaðu þá ekki langt yfir skammt. Byrjaðu á því að skoða og meta til fulls það sem þú hefur nú þegar. 

Þetta er allt saman beint fyrir framan þig…já, beint fyrir framan tútturnar á þér.




Skoðun

Sjá meira


×