Innlent

Gagnrýnir tafir á rannsókn bótasvika

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Sigríður Lillý vill að bótasvik séu tekin alvarlega og segir rannsóknarhagsmuni í húfi þegar rannsókn mála tefst óhóflega.
Sigríður Lillý vill að bótasvik séu tekin alvarlega og segir rannsóknarhagsmuni í húfi þegar rannsókn mála tefst óhóflega.
Ekki enn hefur verið gefin út ákæra vegna bótasvikamáls þar sem aðstandendur látinnar konu sviku út lífeyri hennar í tíu ár. Fréttablaðið greindi frá því að Tryggingastofnun kærði málið til lögreglu árið 2011 og því hefur það verið ansi lengi í rannsókn.

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar segir bagalegt þegar rannsókn mála dregst á langinn en líka fyrir þá kærðu sem þurfi að bíða árum saman eftir niðurstöðu. Þá geti töf á rannsókn spillt rannsóknarhagsmunum.

„Það er alltaf bagalegt ef rannsókn mála dregst á langinn - fyrir kæranda en einnig hlýtur það að vera erfitt fyrir hinn kærða að þurfa að bíða árum saman eftir niðurstöðu máls. Töf á rannsókn getur spillt rannsóknarhagsmunum og leitt til þess að erfiðara verði að sanna atvik máls og innheimta sviknar greiðslur.“

Sigríður Lillý segir flestum svikamálum ljúka á annan hátt en með lögreglurannsókn. Aðeins þau alvarlegustu eru kærð. „Mál sem varða mikla fjármuni eða að okkar mati einbeittan vilja til svika, segir hún en heimildir Fréttablaðsins herma að sviknar bætur nemi tugum milljóna króna. Önnur mál sem kærð hafa verið til lögreglu varða bótasvik móður sem rangfeðraði barn sitt í ágóðaskyni og einstakling sem sagði rangt til um fjölskylduaðstæður sínar.

„Almannatryggingakerfið er afar mikilvægur þáttur velferðarkerfisins sem standa verður vörð um, svo um það sé sátt. Það almannafé sem til þess er varið má ekki liggja á glámbekk, opið fyrir þjófnaði.

Tryggingastofnun greiðir ríflega 100 milljarða króna árlega, eða um fimmtung fjárlaga til viðskiptavina sinna á grundvelli þeirra réttinda sem löggjafinn ákvarðar. Komist einstaklingar með sviksamlegum hætti inn í greiðslukerfið gætu þeir tekið sér umtalsverða fjármuni. Í raun gætu þeir orðið áskrifendur að greiðslum sem þeir eiga engan rétt á um langan tíma ef ekkert er að gert,“ bendir hún á.

„Bótasvik eru þess vegna almennt litin afar alvarlegum augum í löndunum allt í kringum okkar og það verðum við að gera líka. Við höfum átt gott samstarf við lögregluna sem hefur sýnt þessu ákveðinn skilning, en margra ára tafir við rannsókn þeirra mála sem TR hefur kært eru okkur mikið áhyggjuefni. Mikilvægt er að réttarkerfið eins og réttindakerfið virki eins og til er ætlast og njóti trausts borgaranna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×