Skoðun

Trúlega best

Sverrir Björnsson skrifar
Ég sat á kaffihúsi um daginn, þegar maður á næsta borði hallaði sér að mér og var mikið niðri fyrir. Veistu að það er vera sem fylgist með okkur allan sólarhringinn? Ha, áttu við Öryggisstofnun Bandaríkjanna eða Google? spurði ég. Nei, nei, þessi vera veit ekki bara hvað þú gerir í tölvunni og símanum þínum, hún veit allt sem þú gerir, allan sólarhringinn! Það er frekar óhugnanleg tilhugsun, sagði ég. Nei, nei, það er allt í lagi af því hún er svo góð. Sagði hann.

Getur hún fylgst með öllum, öllum í heiminum samtímis? spurði ég frekar vantrúaður. Já, það er ekkert mál fyrir hana, hún veit allt. Hvernig veistu þetta? spurði ég. Það er til bók um hana, sagði hann. Í bókinni segir veran okkur hvernig við eigum að lifa, hvað við megum og hvað við megum ekki. Lifir fólk í alvöru eftir þessu? spurði ég. Já, fullt af fólki fer bókstaflega alveg eftir því sem veran segir. Hefur einhver séð þessa veru? spurði ég. Nei, ekki nokkur lifandi maður en hún hefur samt sést.

Í veruleik allan daginn

Hvenær var það? spurði ég spenntur. Fyrir nokkur þúsund árum. Já, góðan daginn, hvernig veistu að veran er til? spurði ég. Sonur hennar kom einu sinni í heimsókn og ég bara finn það á mér, í hjarta mér, að veran er til. Það má alls ekki efast og maður á að reyna að fá sem flesta til að trúa á hana, til dæmis með því að kenna börnum í skólum um hana. Er það ekki fulllangt gengið, spyr ég, þar sem enginn veit fyrir víst hvort þessi vera er til? Trúir þú mér ekki? spurði hann sár. Ja, ég á dálítið erfitt með að taka bara þín orð og nokkur þúsund ára gamlan vitnisburð trúanleg í svona mikilvægu máli.

Nú fór að hitna í vininum. Það er ekki bara ég, alls konar annað fólk trúir á hana, meira að segja sumir borgarstjórar og það er til fólk sem segir að orð verunnar eigi að vera lögin í landinu. Ha?! Já, og þeir eru tilbúnir að fara í heilagt stríð til að berjast fyrir því. Allir sem trúa á veruna fá nefnilega að hitta hana eftir að þeir eru dánir. Hvernig er það hægt? spurði ég. Þá fer fólk upp í himin og þar er alveg frábært að vera. Himininn? Er þetta geimvera sem þú ert að tala um? Nei, nei, hún býr þar bara en stjórnar öllu á jörðinni. Mér var farið að detta í hug að það væri geðlyfjaskortur í landinu og fór að mjaka mér út.

Hann kallaði á eftir mér: Þú manst að gera ekki grín að henni, þá verður þú kannski drepinn. Já, já, ég reyni að varast það, vertu sæll. Mikið var ég feginn þegar ég komst út en kannski er til fleira fólk eins og þessi blessaði maður, sem er í veruleik allan daginn og vill að við stjórnum lífi okkar og samfélagi eftir því. Það má ímynda sér hvað sem er fyrir mér, lífið er vissulega sumum manneskjum svo þungbært eða tilgangslaust að þær geta ekki lifað án vonar um að eitthvað súpergott sé í gangi á bak við tjöldin. En eftir þetta kaffihúsaspjall skil ég betur þá sem vilja algjörlega skilja á milli fantasíu og samfélags; laganna, skólanna og ríkisins. Það er trúlega best.




Skoðun

Sjá meira


×