Lífið

Landinn liggur í flensu eða er á leið úr landi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Margir Íslendingar fara árlega til Kanaríeyja, sérstaklega þegar veðrið er slæmt hér á landi, eins og það hefur verið undanfarið.
Margir Íslendingar fara árlega til Kanaríeyja, sérstaklega þegar veðrið er slæmt hér á landi, eins og það hefur verið undanfarið.
Svo virðist sem stór hluti landsmanna hafi fengið sig fullsaddan á veðrinu það sem af er árinu og vilji komast í sólina. Ferðaskrifstofur hér á landi finna að minnsta kosti fyrir stórauknum áhuga á sólarlandaferðum. Og helst sem fyrst.

„Við fáum símtöl frá fólki sem vill bara komast burt af landinu sem fyrst. Enda eru flestir komnir með nóg af veðrinu,“ segir Olga Sigurðardóttir, sölufulltrúi hjá Plúsferðum, í samtali við Fréttablaðið. Við vinnslu fréttarinnar var einnig haft samband við Úrval Útsýn og Heimsferðir. Þar fengust sömu svör.

„Við finnum fyrir því að fólk vill komast út sem fyrst. Auk þess finnum við bara fyrir almennt meiri áhuga. Fleiri fyrirspurnir og meiri umferð um heimasíðuna okkar,“ segir Jónína Björnsdóttir, markaðsstjóri Úrvals Útsýnar. Fulltrúar allra ferðaskrifstofanna segja ferðir til Tenerife og Kanarí langvinsælastar.

Guðrún Sigmundsdóttir
Mikið um afbókanir vegna veikinda

Þó eru ekki allir landsmenn á leið úr landi. Sérstaklega þar sem stór hluti Íslendinga liggur nú í flensu og veikindum. Ferðaskrifstofurnar finna fyrir því að viðskiptavinir neyðist til að afbóka vegna veikinda. „Já, við finnum mikið fyrir því,“ segir Olga hjá Plúsferðum og bætir við: „Þetta kemur mikið í bylgjum. Og undanfarið hefur verið mikið afbókað vegna þess að fólk er of veikt til að fara.“ Hjá Heimsferðum fengust svipuð svör. 

Flensan er skæð

Þegar tölur yfir flensutilfelli á landinu eru skoðuð kemur það kannski lítið á óvart að viðskiptavinir ferðaskrifstofa þurfi að afbóka ferðir vegna veikinda. Tilkynnt tilfelli flensulíkra smita eru rúmlega tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Árið er sannkallað metár í flensusmitum, séu síðustu fimm ár skoðuð. „Toppurinn er hærri í ár en áður,“ segir Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir smitsjúkdóma hjá Landlæknisembættinu. Í upplýsingum frá embættinu kemur fram að mikið álag sé á Landspítalanum vegna öndunarfærasýkinga og annarra veikinda. En svo virðist sem áhrif flensunnar séu eitthvað að dvína, því fjöldi tilkynntra smita og fjöldi innlagna á Landspítalann hefur dregist saman undanfarna daga.

Hér er línurit yfir inflúensulík smit. Það þýðir að þetta eru tilkynningar um smit sem talið er að séu inflúensa, þrátt fyrir að sýni hafi ekki alltaf verið tekið. Svokallaðar klínískar greiningar. Tölurnar eru unnar upp úr sambærilegum gögnum ár hvert.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.