Skoðun

Finndu og ræktaðu hæfileika þína

Edna Lupita og Kremena Demireva og María Gísladóttir skrifa
Geðorðin 10

Greinin er níunda greinin af tíu í greinaröð jafn margra úrræða og/eða félaga á geðheilbrigðissviðinu á höfuðborgarsvæðinu um Geðorðin 10.

Hlutverkasetur er starfsendurhæfingar- og virknimiðstöð. Fólk kemur til að auka lífsgæði sín, brjótast út úr einangrun, halda sér virku eða undirbúa sig til náms eða vinnu. Edna, Kremena og María eru mæður sem allar hafa nýtt listræna hæfileika sína til að endurheimta vonina og trú á eigin áhrifamátt eftir áföll í lífinu.

Edna Lupita. Ég kom Íslands frá Mexíkó 1998. Ég varð þunglynd fyrir nokkrum árum og lagðist í kjölfarið á geðdeild LSH. Ég kynntist Hlutverkasetri og tók m.a. þátt í leiklistartímum. Sjálfstraustið óx og ég öðlaðist kjarkinn á ný. Ég hef síðan haldið námskeið í dansi og leiklist og sett upp tvær jólasýningar. Í fyrstu hafði ég enga trú á mér. Ég var hvött til að mæta, fræðast og kynnast fólkinu. Ég fékk leyfi til að vera þiggjandi og þurfti ekkert að gefa af mér til að vera samþykkt. Síðan þá hef ég öðlast meiri reynslu og sjálfstraust og fengið tækifæri til að þróa mínar eigin aðferðir bæði í leiklist og dansi. Mitt markmið er að stofna leikhóp þar sem listamenn og fólk sem kljáist við geðraskanir vinna saman. Í dag rækta ég hæfileika mína og er sífellt að uppgötva nýja. Ég hef lokið námi frá LHÍ og veit núna að ég er ekki bara góð í dans- og leiklist heldur hef ég uppgötvað að ég er líka góð í mannlegum samskiptum og síðast en ekki síst í listinni að lifa.

Kremena Demireva. Fyrir þremur árum datt ég út af vinnumarkaði eftir skilnað og einangraðist í kjölfarið. Eftir innlögn á geðdeild LSH var mér vísað í Hlutverkasetur. Þar kynntist ég fólki sem var í sömu sporum og ég og eignaðist vini. Ég hef alltaf haft áhuga á saumaskap og þegar ég uppgötvaði saumavélina þá fannst mér ég vera komin heim til mömmu í Búlgaríu. Mér var boðið að nýta hana og tók ég því þakksamlega. Ég fékk tækifæri til að hanna og sauma föt. Fólkið, saumavélin og hæfileikar mínir hafa hjálpað mér að öðlast tilgang á ný. Á konukvöldi sl. vor stóð ég t.d. fyrir tískusýningu. Ég fæ mikið hrós á staðnum og er hvött áfram í því að útfæra nýjar hugmyndir og halda áfram á sömu braut. Í dag er ég komin í hlutastarf að aðstoða aðra sem eru í svipuðum sporum og ég var í þegar ég var að brjótast út úr einangrun. Ég kem í Hlutverkasetur til að gleðjast, fá stuðning og kærleik sem er mér nauðsynlegur til að halda áfram að lifa og geta látið gott af mér leiða.

María Gísladóttir. Ég hef lengst af búið í Reykjavík en ég hef einnig búið í Mið-Austurlöndum og Króatíu. Ég hef lifað við ofbeldi og hef glímt við áfallastreituröskun. Um síðastliðin áramót varð ég fyrir enn einu áfallinu og frétti þá af Hlutverkasetri og fór að sækja það reglulega. Þar hef ég fengið stuðning, hvatningu, skilning og traust. Ég hef ekki getað ræktað og hlúð að listrænum hæfileikum mínum fyrr en nú. Ég byrjaði að stunda listsköpun og fljótlega var ég virkjuð í að leiðbeina og halda námskeið í teikningu og fleiri listgreinum í Hlutverkasetri. Síðustu mánuði hef ég einnig liðsinnt gestum Vinjar í myndmennt. Mig dreymir um að nýta hæfileika mína og reynslu enn frekar, læra meira og vinna við listkennslu í framtíðinni. Í haust hélt ég mína fyrstu sýningu í Drekaslóð og mun vera með á myndlistarsýningu á 10 ára afmæli Hlutverkaseturs næsta ár. Draumurinn er að verða leiðbeinandi í mismunandi listformum sem nýtist fólki sem á við einhvers konar erfiðleika að stríða.
Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.