Skoðun

Lýðræði fyrir alla?

Guðrún Magnúsdóttir skrifar
Síðustu mánuði hef ég varla hugsað um annað en þátttöku innflytjenda í kosningum. Það er vegna þess að mastersverkefnið mitt, „Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík 2014: Innsýn í reynslu fólks af erlendum uppruna af þeim“, fjallaði um þann málaflokk, í íslensku (eða í raun reykvísku) samhengi. Það er alveg ótrúlegt hvað þáttur eins og lýðræðisleg þátttaka minnihlutahóps í samfélaginu er í raun lítið rannsakaður. Hjá Hagstofu Íslands finnast eingöngu tölur um þátttöku fólks af erlendum bakgrunni frá árinu 2006 og bera þau hjá Hagstofunni fyrir sig að það sé of mikið álag á kjörstjórnir að safna þessum gögnum. Of mikið álag eða of mikið ómerkilegt?

Tölur yfir þátttöku eftir aldri hafa til dæmis verið notaðar til að rýna í mögulegar ástæður fyrir því að ungt fólk tekur lítinn þátt í kosningum, eins og raun bar vitni í síðustu borgarstjórnarkosningum (2014). Af hverju ætti ekki að vera hægt að nýta tölur yfir þátttöku fólks af erlendum uppruna í eitthvað svipað? Nú eða ef þessar tölur sýna mikla þátttöku, þá reyna að viðhalda þátttökunni eða jafnvel bæta hana enn meira. Jafnvel skoða hvaða þættir hafa hvetjandi áhrif á fólkið til að taka þátt og reyna að nýta það í að hvetja aðra til þátttöku.

Íslensk stjórnvöld segja í stefnu sinni um aðlögun innflytjenda að þátttaka nýrra Íslendinga á öllum sviðum samfélagsins sé mjög mikilvæg. Jafnframt segir í stefnunni að hornsteinn íslensks samfélags séu meðal annars lýðræði, samábyrgð og mannréttindi. Í mínum rannsóknum hefur komið í ljós að það eru ekki allir innflytjendur sem vita að þeir hafa í raun kosningarrétt. Er það lýðræðislegt? Er það samábyrgð? Eru það mannréttindi?

Það er alveg ljóst að á þessu sviði er margt hægt að bæta, sé vilji fyrir hendi.




Skoðun

Sjá meira


×