Skoðun

Á­hrif Vestur­landa og vöxtur Kína

Jón Sigurgeirsson skrifar

Kína hefur sameinað ríkisafskipti og markaðsframtak á hátt sem hefur lyft landinu úr fátækt í átt að hátækni-iðnaðarveldi. Reynslan sýnir að stöðugleiki, menntun og langtímastefna geta verið jafn mikilvæg og frjáls markaður. Spurningin er nú hvort þróunin verði í samvinnu við Vesturlönd eða í nýrri blokk með öðrum mörkuðum sem gætu ógnað Vesturlöndum.

Vestrænir hagfræðingar hafa lengi spáð því að hraður efnahagsvöxtur Kína myndi fjara út, byggt á þeirri hugmynd að aðeins lágmarks ríkisafskipti skapi hámarks vöxt. Sú kenning stenst ekki lengur. Í Rússlandi mistókst einkavæðing vegna skorts á regluverki og í Bandaríkjunum hefur ríkið í raun fjármagnað og hvatt til stórs hluta tækniframfara – í gegnum varnariðnað, styrki til háskóla og stór innkaup, t.d. hjá SpaceX.

Sterk fyrirtæki þurfa stöðugleika, menntaða starfsmenn og traust. Vestrænt markaðskerfi byggir á einstaklingsframtaki en getur brugðist ef velferð fólks er veik og félagslegur ójöfnuður dregur úr hollustu starfsmanna. Kína hefur hins vegar tryggt stöðugleika með miðstýrðri stefnumótun og langtímaáætlunum, og sameinað markaðsdrifið frumkvæði með ríkisafskiptum. Ríkið setur stefnu og á hlut í öllum stóru fyrirtækjunum en leyfir þeim að vaxa innan ramma flokksins.

Þannig hefur Kína lyft hundruðum milljóna úr fátækt og orðið alvöru iðnaðarveldi. Fyrstu vörur þeirra voru einfaldar en með því að senda námsmenn til Vesturlanda, tækniflæði úr samstarfi við vestræn fyrirtæki og mikilli áherslu á menntun hafa þeir byggt upp eigin hátæknigeira. Þeir eru þegar farnir að leiða á sumum sviðum, m.a. í samgöngutækni.

Markmið Kína virðist vera að tryggja fólki lífskjör sambærileg við Vesturlönd með blöndu einstaklingsframtaks og ríkisramma. Þeir sækja hráefni og markaði með „belti og braut“ og nýta tækifæri sem skapast þegar Vesturlönd setja viðskiptahindranir. Slíkar hindranir ýta Kína í fang Rússa, Afríku, Suður-Ameríku og Indlands.

Kína er því á leið að verða hátækniiðnaðarveldi með eigin staðla, tækni og markaði. Hvernig þetta þróast ræðst að stórum hluta af Vesturlöndunum sjálfum: hvort samkeppnin verði heiðarleg og í anda frjálsra viðskipta, eða hvort tollar og pólitískt hatur ýti Kína enn lengra frá og styrki nýja valdablokk með öðrum áherslum en þeim sem Vesturlönd hafa mótað. Þannig getum við orðið hornreka í heiminum. Vöxtur Kína verður ekki stöðvaður með viðskiptahindrunum.

Höfundur er aldraður lögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×