Innlent

Óttast verðbólgu og meiri skuldir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Landspítalinn
Landspítalinn Fréttablaðið/Ernir
Minnihluti landsmanna vill að aðrir fái sambærilegar launahækkanir og læknar samkvæmt niðurstöðu könnunar Capacent Gallup. Könnunin var gerð fyrir Samtök atvinnulífsins dagana 15. til 29. janúar síðastliðinn.

Nærri átta af hverjum tíu Íslendingum telja að verðbólga muni aukast og verðtryggðar húsnæðisskuldir hækka ef laun allra hækka jafn mikið og lækna.

Capacent Gallup spurði Íslendinga álits í janúar í kjölfar kjarasamninga fjármálaráðuneytisins og lækna, en vísað hefur verið til þeirra sem fyrirmyndar í kjaraviðræðum fram undan á almennum vinnumarkaði.

Þá telja rúmlega sjö af hverjum tíu að vextir muni hækka í kjölfar slíkra samninga.

Þegar spurt er um áhrif svo mikilla launahækkana á verðtryggðar húsnæðisskuldir ef samið yrði við aðrar starfsstéttir um sambærilegar hækkanir og læknar sömdu um telur 79,1 prósent að verðtryggðar skuldir muni hækka, 19,3 prósent að skuldirnar muni standa í stað en 1,5 prósent að þær muni lækka.

Í könnuninni var einnig spurt hversu sammála eða ósammála þátttakendur væru fullyrðingu um að ekki ætti að semja við aðrar starfsstéttir um sambærilegar launahækkanir og læknar sömdu um. 49,2 prósent þeirra sem svöruðu sögðust sammála fullyrðingunni, 38,1 prósent var ósammála en 12,7 prósent tóku ekki afstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×