Viðskipti innlent

Forstjóri Kauphallar segir skorta gagnsæi

jón hákon halldórsson skrifar
Páll Harðarson
Páll Harðarson
„Með hliðsjón af óumdeildum ávinningi gagnsæis er það áhyggjuefni hversu lítið gagnsæi er í kringum afgreiðslu beiðna um undanþágur frá gjaldeyrishöftum.“ Þetta segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, í grein í Markaðnum í dag.

Páll segir Seðlabankann telja gagnsæi takmörkunum háð vegna þagnarskyldu gagnvart umsækjendum en hafi reynt að koma til móts við kröfu um aukið gagnsæi með birtingu upplýsinga um almenna framkvæmd undanþágubeiðna.

„Umsækjendum er engu að síður nokkur vandi á höndum við mat á því hvort jafnræðis sé gætt í ákvörðunum bankans. Einfalt væri að draga úr tortryggni, til dæmis með því að bjóða upp á fljótvirka kæruleið eins og Viðskiptaráð Íslands hefur lagt til,“ segir Páll.

Viðskiptaráð sendi umboðsmanni Alþingis og Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, bréf í september með tillögum um umbætur á stjórnsýsluháttum Seðlabanka Íslands, þar á meðal tillögu um kæruleið þannig að unnt sé að láta reyna á bæði málsmeðferð og niðurstöðu ákvarðana.

„Það sem við höfum nefnt sem viðbótarvalkost er að fyrirtækjum verði gefinn kostur á flýtiafgreiðslu á undanþágubeiðnum í samhengi við það að það er mjög misjafnt hvað eru miklir hagsmunir undir þegar kemur að þessum undanþágubeiðnum. Og í þeim tilfellum þar sem þarf að fá svar fljótt í samhengi við þann gjörning sem um ræðir, þá sé fyrirtækinu gert kleift að standa undir þeim viðbótarkostnaði sem fylgir slíkri flýtiafgreiðslu,“ segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Eftir ábendingar ráðsins segir Frosti Seðlabankann hafa birt á heimasíðu sinni ítarlegri upplýsingar um eðli undanþáguferlisins, en ekki brugðist við að öðru leyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×