Skoðun

Að komast í núll

Þórir Guðmundsson skrifar

Ég hitti hetjur í síðustu viku.

Á fundi Alþjóða Rauða krossins í Genf voru saman komnir helstu ebólusérfræðingar heims, Rauða kross fólk sem unnið hefur sleitulaust gegn farsóttinni í tíu mánuði og ungur maður frá Líberíu sem fékk ebólu og lifði af.

Dauðasóttin hefur lagst á 22 þúsund manns og lagt nærri níu þúsund að velli. Vísitölur – fjöldi tilfella, dagar frá síðasta tilfelli á einstaka stöðum – benda í eina átt. Sjúkdómurinn er í mikilli rénun.

Fari allt á besta veg eru gífurleg uppbyggingarverkefni fram undan. Innviðir landanna þriggja, Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne, hafa orðið fyrir miklu höggi. Þá þarf að endurreisa. Siðir og mannleg samskipti hafa komist í uppnám. Fólk þarf að læra á ný að snerting felur í sér hlýju en ekki smitleið.

Fyrir Rauða krossinum liggur að hlúa að sínum sjálfboðaliðum. Ungi maðurinn frá Líberíu var óvelkominn í sinn heimabæ þegar hann kom af spítalanum. Hann fékk inni hjá Rauða krossinum og hefur verið sjálfboðaliði í baráttunni gegn ebólu síðan. Hann og þúsundir annarra þurfa bæði áfallahjálp og aðstoð við að byggja upp líf sitt að nýju.

Í Síerra Leóne, þar sem Rauði krossinn á Íslandi hefur hjálpað ungmennum að koma undir sig fótunum, er litið til Íslendinga um stuðning við enduruppbyggingu. Þar eigum við vini og félaga sem þurfa á okkur að halda.

Fyrst þarf samt að komast í núll – útrýma ebólu. Þó að tilfellum hafi fækkað sýkist fólk enn og deyr. Fækkun tilfella gæti tengst þurrkum sem nú eru á svæðinu. Rigningarnar koma í apríl. Enginn veit hvað gerist þá.

Ekki verður hægt að lýsa yfir sigri í baráttunni fyrr en ekkert ebólutilfelli hefur greinst í 42 daga. Þrotlaus vinna sjálfboðaliða og sérfræðinga heldur áfram á meðan. Enn er þörf á hetjum til þess að komast í núll.




Skoðun

Sjá meira


×