Innlent

Vongóð um að fá að starfa sem læknir

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Liana er bjartsýn á að eitthvað sé að þokast í hennar málum og mögulega fái hún að starfa sem læknir hérlendis.
Liana er bjartsýn á að eitthvað sé að þokast í hennar málum og mögulega fái hún að starfa sem læknir hérlendis. Fréttablaðið/Vilhelm

„Það lítur út fyrir að það gæti verið eitthvað að gerast, ég vona það,“ segir Liana Belinska, sem sagði sögu sína í Fréttablaðinu í lok nóvember. Liana er menntaður kvensjúkdómalæknir frá Úkraínu en hefur starfað á leikskóla í átta ár þar sem hún hefur ekki fengið menntun sína metna hérlendis, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Liana hafði fengið vilyrði fyrir því að komast inn í læknadeildina og taka síðustu þrjú ár læknanámsins gegn því að standast inntökupróf í deildina. Liana vildi hins vegar ekki taka inntökuprófið þar sem hún hefur þegar lokið námi og í prófinu er spurt um almenna þekkingu sem getur reynst þeim sem hafa ekki alist upp á Íslandi erfið.

Jón Þór Ólafsson

Eftir að viðtalið við Liönu birtist höfðu fjölmargir samband við hana, bæði fólk sem er statt í sömu aðstæðum og aðrir sem vildu sýna henni stuðning. Á meðal þeirra er þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson sem vildi kynna sér málið til þess að reyna að hjálpa Liönu og öðrum í sambærilegri stöðu. Liana og eiginmaður hennar hittu Jón Þór sem fór svo í kjölfarið á fund forseta Læknadeildar Háskóla Íslands.

Það er læknadeildin sem fer yfir umsóknir þeirra sem sækja um að fá læknaleyfi hérlendis eftir að landlæknir hefur sent umsóknina til þeirra.

„Ég átti mjög uppljómandi spjall með honum og þeim aðila sem metur þetta. Í dag er það þannig að sitja þarf inntökupróf sem byggir líka á almennri þekkingu. Þessi almenna þekking miðar að þeim sem hafa alist upp á Íslandi eða búið hér mjög lengi þannig að það próf mismunar fólki,“ segir Jón Þór.

Hann segist hafa fengið þær upplýsingar að til stæði að breyta fyrirkomulaginu en ástæðan fyrir inntökuprófinu væri meðal annars að koma í veg fyrir að fólk sleppti því að taka inntökuprófið, byrjaði námið erlendis og kæmi svo hingað og tæki restina af náminu. „Það er skref í rétta átt ef þessi almenni hluti verður minnkaður en til þess að fara alla leið með þetta þá væri best að taka alveg út þá þætti sem mismuna fólki í inntökuprófi á forsendu almennrar þekkingar,“ segir Jón Þór.

Hann telur þetta vera mikið réttindamál fyrir þá sem koma hingað til lands og vildi komast að því hvað það væri sem stæði í vegi fyrir þeim sem fá menntunina ekki metna.

Það kom einnig í ljós að hægt er að taka annað próf sem metur verklega kunnáttu lækna og kemur til greina að Liana fái að taka það próf. Hún mun fara á fund forseta læknadeildar síðar í þessum mánuði og er vongóð um að hún fái að starfa sem læknir hér einn daginn.

„Ég ætla allavega að reyna, nú virðist eitthvað vera að gerast,“ segir Liana vongóð og spennt fyrir framhaldinu.


Tengdar fréttir

Kvensjúkdómalæknir í vinnu á leikskóla í átta ár

Kona sem er fædd í Úkraínu hefur búið hérlendis í ellefu ár án þess að fá starf sem hæfir menntun hennar. Hún vinnur á leikskóla og maðurinn hennar sem er menntaður í skurðlækningum vinnur í eldhúsi á spítala.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.