Skoðun

Tökum umræðuna

Björg Árnadóttir skrifar
Af hverju fela konur á sér hárið, spyr stelpan.

Af því að fólki í þessum löndum finnst hár sexí, útskýrir strákurinn.

Vitleysa, hár er ekkert sexí.

Á Vesturlöndum hylja konur á sér brjóstin, segi ég.

Já, brjóst eru kynfæri, segir stelpan. Strákurinn andmælir:

Brjóst eru ekkert kynfæri frekar en hár. Í Afríku ganga margar konur berbrjósta.

Krakkarnir eru á framhaldsskólaaldri og við ræðum saman um hvað aðgreinir fólk frá ólíkum menningarheimum, hvað jarðarbúar gera hlutina ólíkt og eru ósammála um einföldustu mál. Stelpan segist fegin að búa á Íslandi þar sem við höfum réttu skoðanirnar. Ég freista þess með skýringarmynd að sýna hvað 330.000 Íslendingar eru fáir í sjö milljarða mannhafinu og hvað 1100 ára saga okkar sem þjóðar er agnarlítið brot mannkynssögunnar. Við erum dropi í hafinu. En samt er hver Íslendingur jafn mikilvægur öðrum jarðarbúum og saga okkar, menning, tunga og trú jafn mikils virði og önnur menningarsaga. Við erum hins vegar á engan hátt meiri né betri en aðrir. Margir vísir menn leggja á það áherslu að ekkert sé heiminum jafn hættulegt og þjóðernishyggja sem getur á einni nóttu eyðilagt allt sem við við eigum. Þjóðernishyggja veldur því hræðilegasta af öllu – stríði.

Je suis Charlie

Mannkynið hefur löngum flutt á milli staða, stundum af því að okkur langar til þess en oftar tilneydd. Í árþúsundir hafa hópar tekið sig upp og flækst um vegna erfiðra aðstæðna ýmist af manna völdum eða náttúrunnar. Nú á dögum finnst okkur sjálfsagt að ferðast og flytja á milli landa, að minnsta kosti lítum við þannig á rétt okkar sjálfra til að vera hreyfanleg. Sívaxandi alþjóðavæðing minnkar ekki nema einhvern tíma komi að því að ferðalög verði bönnuð af umhverfisástæðum. Þrátt fyrir heimshornaflakkið eigum við óskaplega erfitt með að skilja hvers vegna konur ganga með blæjur hér og ber brjóst þar – eða hvers vegna öðrum er frjálst að hæðast að því sem okkur er heilagt. Við skiljum ekki hvert annað eins og Jón Steinar Gunnlaugsson benti á í síðasta Vikulokaþætti þegar hann sagði að vænlegast væri að nálgast þá sem hafa aðrar skoðanir en við. „Við verðum að tala um hlutina,“ sagði lögmaðurinn og það segir einnig Hvítbók Evrópusambandsins um fjölmenningu (2008): „Aðeins umræða gerir fólki kleift að skapa samheldni í fjölbreytileikanum.“

Aðferðin söguspuni

Árin 2011-2013 tók ég þátt í stóru Evrópuverkefni um millimenningarfærni (intercultural competence) en slík færni felst í að skilja og setja sig í spor fólks frá öðrum menningarheimum og haga sér í samræmi við það. Verkefnið heitir BASICS – bibliodrama as a way of intercultural learning for adults (basics.akademia.is). Þátttakendur voru víðs vegar að, múslimar, kristnir og gyðingar auk fríþenkjara. Markmiðið var að efla samtalið um það sem er líkt og ólíkt með þjóðum. Afar mikilvægt er að tala um öðruvísileikann því án þess næst aldrei skilningur og sátt.

Notuð var aðferðin bibliodrama sem við köllum söguspuna hérlendis til að fólk haldi ekki að við sitjum og lesum biblíuna. Það merka rit er þó notað ásamt öðrum trúarritum, ævintýrum og öðrum textum sem í er að finna visku um gildi fólks og viðhorf. Með aðferðum spunans færum við textana til nútímans og speglum okkur sjálf. Í gamalli, súfískri sögu getum við komið auga á kjarnann í sjálfum okkur eða séð íslenska menningu í nýju ljósi. Við fylgjumst líka með speglun annarra þátttakenda og skiljum þá betur fyrir vikið. Þannig tekst okkur að skilja hvers vegna konur hylja hár sitt eða bera brjóst eða hvað það nú er sem „hinir“ gera öðruvísi en „við“. Við skiljum það ekki bara heldur upplifum af því að við lendum í að túlka konuna með blæjuna og „hin“ lífsviðhorfin. Söguspuni er einstaklega áhrifarík aðferð til að skapa umræðu um fjölmenningu hvort heldur í blönduðum eða einsleitum hópum.

Mig langaði bara til að minnast á þessa aðferð og við erum nokkur hérlendis sem notum hana. Íslenska þjóðin þarf á millimenningarumræðu að halda til að kenna því erlenda fólki sem heiðrar okkur með nærveru sinni að sjá hlutina í okkar ljósi – og okkur að sjá okkur sjálf í nýju ljósi.




Skoðun

Sjá meira


×