Fótbolti

Aron: Þetta hefur verið erfiðasta tímabil lífs míns

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Jóhannsson er kominn á fínan skrið með AZ Alkmaar.
Aron Jóhannsson er kominn á fínan skrið með AZ Alkmaar. vísir/getty
Fjölnismaðurinn Aron Jóhannsson, framherji AZ Alkmaar í Hollandi og bandaríska landsliðsins í fótbolta, situr fyrir svörum á vefsíðunni USSoccerPlayers.com.

Þar er hann spurður um líf sitt sem atvinnumaður utan Bandaríkjanna, en hann segist njóta lífsins hjá Alkmaar í Hollandi.

Aron er kominn aftur af stað eftir erfið meiðsli og skorar nú reglulega á ný í hollensku deildinni. Tímabilið hefur þó ekki verið dans á rósum fyrir framherjann.

„Þetta tímabil hefur verið það erfiðasta í mínu lífi þar sem meiðslin hafa spilað stóra rullu. Það hefur verið erfitt að finna sama takt og í fyrra en ég er að vinna í því,“ segir Aron.

Aron og Jozy Altidore á HM í Brasilíu.vísir/getty
MLS-deildin í Bandaríkjunum hefur unnið markvisst í því að fá landsliðsmennina heim og borgar þeim vel. Nú síðast gekk Jozy Altidore, fyrrverandi samherji Arons hjá AZ, til liðs við Toronto FC frá Sunderland á Englandi.

„Mig langar mikið til að spila í MLS-deildinni á einhverjum tímapunkti. Þegar tímasetningin er rétt vonast ég til að fá tækifæri þar,“ segir Aron.

Aron var mættur í bandaríska landsliðið á ný þegar liðið mætti Danmörku í vináttuleik á dögunum. Hann spilaði við hlið Jozy Altidore og skoruðu þeir báðir. Leikurinn tapaðist þó, 3-2. Honum líður best í framlínunni með Altidore með sér.

„Oftast þegar ég hef spilað hefur það verið með Jozy. Við höfum átt gott samstarf á vellinum og vonandi verður það bara betra eftir því sem við spilum oftar saman,“ segir Aron Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×