Skoðun

Verða hjúkrunarfræðingar framtíðarinnar valdir með A-prófi?

Karl Guðlaugsson skrifar
Á vef hjúkrunarfræðideildar HÍ segir m.a.: „Kennsla í hjúkrunarfræði er þverfagleg og miðar að því að nemendur verði færir um að viðhalda og efla heilbrigði skjólstæðinga sinna og bæta líðan þeirra í veikindum.“ „Starf hjúkrunarfræðingsins er fjölbreytt og krefjandi og gerir kröfur um skilning á mannlegu eðli.“ „Í náminu er lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning á margbreytileika mannsins…“ „Í náminu er lögð áhersla á að kenna um manninn, umhverfi hans og heilsu, og hvernig hægt er með hjúkrun að hafa áhrif á aðstæður hans og líðan.“

Í ábendingu til allra umsækjenda frá hjúkrunardeild HÍ segir m.a.: „Hjúkrunarfræðin felur í sér náin samskipti og vinnu með fólki og leggur því áherslu á greinar sem auka skilning nemenda á manninum, eiginleikum hans og starfsemi. Því er æskilegt að allir nemendur hafi undirbúning í félags- og sálarfræði, sem og í líffræði og lífeðlisfræði. Sérstaklega er bent á nauðsyn þess að hafa góða undirstöðuþekkingu í almennri efnafræði og lífrænni efnafræði. Að auki er góður undirbúningur í ensku mikilvægur þar sem nánast allt lesefni er á ensku.“

Að ofansögðu má ljóst vera að hjúkrunarfræðideild HÍ leggur ásamt fleiru, mikla áherslu á þekkingu, leikni og hæfni í mannlegum þáttum tilverunnar, félagsfærni.

Fyrir námsárið 2015-2016 var inntökuskilyrðum í hjúkrunarfræðideild HÍ breytt. Í aðgangskröfum til að hefja námið segir m.a.: „Ef umsækjendur eru fleiri en fjöldatakmörkun kveður á um skal ákvörðun um inntöku nýnema byggð á frammistöðu í Aðgangsprófi (A-prófi) fyrir háskólastig annars vegar og veginni meðaleinkunn úr kjarnagreinum, íslensku, ensku og stærðfræði, í námi til stúdentsprófs hins vegar. Gildir frammistaða í Aðgangsprófi 70% og vegin meðaleinkunn úr kjarnagreinunum íslensku, ensku og stærðfræði í námi til stúdentsprófs 30%.“

Í reglum um inntöku nýnema og inntökupróf í hjúkrunarfræðideild HÍ nr. 24/2015 segir í 3. gr.: „Inntökuprófið er Aðgangspróf fyrir háskólastig (A-próf). Kennslusvið Háskóla Íslands í samráði við Hjúkrunarfræðideild annast undirbúning þess og framkvæmd.

Markmið prófsins er að kanna hæfni stúdents til að hagnýta þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér í samræmi við markmið aðalnámskrár framhaldsskólanna. Prófað er í eftirtöldum fimm þáttum: upplýsinganotkun, málfærni, lesskilningi á íslensku, lesskilningi á ensku og stærðum og reiknanleika.“

Til hvers eru framhaldsskólar?

Í lögum um framhaldsskóla segir m.a.: „Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.“

Þannig eru framhaldsskólar landsins bundnir af lögum að mennta verðandi háskólanema í hjúkrunarfræði, en benda má á að framhaldsskólar eru deildarskiptir, þar sem kennurum er treystandi til að kenna og nemendum treystandi til að læra félagsfræði, sálarfræði, líffræði, efnafræði, lífeðlisfræði og ensku.

Hvert er hlutverk hjúkrunarfræðideildar HÍ?

Æðsta takmark hverrar hjúkrunarfræðideildar hlýtur að vera að fá til náms hæfustu nemendurna og mennta til að verða framúrskarandi hjúkrunarfræðingar. Til dagsins í dag tel ég að hjúkrunarfræðideild HÍ hafi farnast afar vel við menntun hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðideild HÍ á að búa yfir sjálfstæði, ráða því sjálf með hvaða hætti hún velur nemendur til náms, enda þeir sem við deildina starfa með faglega þekkingu til þess. Ef skoðuð er námskrá og hæfniskröfur verðandi hjúkrunarfræðinga hjúkrunarfræðideildar HÍ er vandasamt að finna tengingu við getu til að svara A-prófi. A-prófið mælir ekki á nokkurn hátt þekkingu, leikni og hæfni til félagsfærni né marga aðra hæfileika sem hjúkrunarfræðingar þurfa að búa yfir. Þess vegna er A-prófið galin hugmynd til að velja hjúkrunarfræðinga framtíðarinnar.

Að lokum skora ég á stóran hagsmunaaðila þessa máls, Hjúkrunarfræðingafélag Íslands, að kynna félagsmönnum sínum A-prófið, ræða og koma með tillögur um hvernig félagið telji heppilegast að velja hjúkrunarfræðinga framtíðarinnar. Hjúkrunarfræðingar geta sjálfir, með því að slá inn á leitarvélar tölva aprof.is, þreytt A-prófið og séð hvort þeir finna tengingu með A-prófinu og þeirri menntun og því göfuga vandasama ævistarfi sem þeir völdu sér.

Hefurðu sögu að segja eða skoðun að deila? Ef svo er sendu okkur grein ásamt mynd á netfangið ritstjorn(hja)visir.is




Skoðun

Sjá meira


×