Viðskipti innlent

Greiddu hátt á annan milljarð fyrir umbúðir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Endurvinnslan Það er jafnan mikið að gera á móttökustöð Endurvinnslunnar á Dalvegi.
Endurvinnslan Það er jafnan mikið að gera á móttökustöð Endurvinnslunnar á Dalvegi. fréttablaðið/stefán
Áætlað er að neytendur hafi greitt á bilinu 1.870-1.880 milljónir króna í endurvinnslugjald fyrir einnota drykkjarvöruumbúðir á árinu 2014. Af því endurgreiddi endurvinnslan um 1.636 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Helga Lárussyni, framkvæmdastjóra Endurvinnslunnar.

Samkvæmt 1. grein laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur skal leggja skilagjald á drykkjarvörur í einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plastefni.

Samkvæmt 3. grein sömu laga skal endurgreiða neytendum skilagjald við móttöku á notuðum skilagjaldsskyldum umbúðum. „Við höfum verið með eitt allra besta skilahlutfall í heimi miðað við það sem kemur í gegnum skilakerfi,“ segir Helgi.

Helgi segir að endurgreiðslur hafi hækkað örlítið á árinu sem leið því skilagjaldið fór úr fjórtán krónum í fimmtán. „Þannig að það jókst sem því nemur auk þess sem Íslendingar virðast vera farnir að drekka aðeins meira eftir hrun. Það hefur því verið aukning í sölu þessara umbúða og líka er hluti af aukningunni kominn þannig til að 1. janúar 2014 var Fríhöfninni skylt að greiða skilagjald af því sem kemur í gegnum móttökufríhöfnina,“ segir Helgi.

Helgi segir að Endurvinnslan selji ál og plast til útlanda en glerið sé erfiðara viðfangsefni. „Það fæst ekkert fyrir gler og tiltölulega einfalt að búa til gler,“ segir hann. Það sé af sem áður var þegar glerið var fjölnota og tekið inn og þvegið. „Þá var mannskapur sem tók tyggjóklessur upp úr glerinu og þetta var sett í lút. Það eru nánast öll lönd hætt þessu. Mjög fá lönd eru með margnota gler,“ segir hann. Glerið er því notað í landfyllingu.

Í fyrra seldi Endurvinnslan til útlanda 1.590 tonn af endurvinnanlegu plasti og 810 tonn af áli. Þá segir Helgi að viðskiptavinir hafi komið með 66 tonn af plastpokum á móttökustöðvar á Dalvegi og í Knarrarvogi sem sendir voru í endurvinnslu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×