Innlent

Stóðu ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum og gert að greiða 75 milljónir

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn játaði brot sín en konan neitaði sök.
Maðurinn játaði brot sín en konan neitaði sök. vísir/stefán
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í síðustu viku hjón í tíu og sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar skattalagabrot árin 2011 til 2013. Þeim er gert að greiða rúmlega 75 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs og fá fjórar vikur til að standa skil á greiðslunum.

Hjónin voru sökuð um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélags þeirra, Verks 10, á lögmætum tíma og fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins innan lögboðins frests.

Karlmaðurinn viðurkenndi að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök, en konan ekki. Hún var skráður framkvæmdastjóri, en hún sagðist engin afskipti hafa haft af rekstri félagsins, þar með skattskilum þess.  Hún hafi aðeins verið skráð sem framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður að nafninu til og að rekstur félagsins hafi alfarið verið í höndum

 

Ekki með „hreint nafn“

Þá sagði hún að sú ráðstöfun að skrá hana sem framkvæmdastjóra félagsins hafi átt að standa í skamman tíma en farist hafi fyrir að breyta því. Ástæða þess hafi verið sú að maður hennar hafi ekki verið með „hreint nafn“. Rekstrarerfiðleikar hefðu á endanum leitt til þess að ekki hafi verið staðið í skilum með greiðslu skatta. Eiginmaðurinn tók í einu og öllu undir lýsingar hennar, að því er segir í dómnum.

Dómurinn taldi ekki ástæðu til að draga í efa framburð konunnar. Þó verði ekki litið fram hjá þeim skyldum sem að lögum hvíla á skráðum framkvæmdastjóra, sem ber skylda til að sjá til þess að nægt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félags.  Hún hafði ekki áður sætt refsingu og taldi dómurinn sex mánaða skilorðsbundið fangelsi því hæfileg refsing. Þá er konunni einnig gert að greiða 34.500.000 kr. Maðurinn var dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða 40.900.000 kr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×