Skoðun

Ferðamenn í vandræðum – hvað er til ráða?

Jónas Guðmundsson skrifar
Undanfarnar vikur hefur mikil umræða verið í fjölmiðlum og þjóðfélaginu almennt um ferðamenn og útköll björgunarsveita vegna þeirra. Það má segja að umræðan hafi á stundum verið á villigötum, jafnvel meiri en þeim sem ferðamennirnir sjálfir lenda í.

Að fækka atvikum þeim sem ferðamenn þurfa aðstoð björgunarsveita eða annara viðbragðsaðila snýst fyrst og fremst um stýringu ferðamanna og uppbyggingu innviða.

En fyrst ber þó að minnast á veðurfarið síðustu mánuði sem hefur verið ferðalöngun, innlendum sem erlendum afar erfitt til ferðalaga.

Ekki þarf að leita lengra en upp á fjallveginn yfir Hellisheiði. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var heiðinni lokað tvisvar sinnum fyrstu tvo mánuði ársins 2014 en á sama tíma þetta árið hefur henni verið lokað oftar en tíu sinnum.  Svipaða aukningu má sjá í lokunum á Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og fleiri stöðum. Leita þarf einhverja áratugi aftur í tímann til að sjá þennan fjölda lægða á þetta skömmum tíma.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur síðustu árin lagt mikla áherslu á stýringu ferðamanna enda fer þar saman verndun ferðamanns og náttúru. Oram (1995) sagði að stýringu ferðamanna á náttúrusvæðum mætti skipta í þrennt;

  1. Handstýring en í því felst staðsetning þjónustu hvort sem um er að ræða vegi, gistingu, göngustígar og auðvitað ferðamannastaðirnir sjálfir. Á einfaldan hátt má kannski segja að að því fleiri staðir sem byggðir eru upp því meira er hægt að dreifa ferðamönnum.
  2. Bein stjórnun en í því felst að lög og reglugerðir stýra hegðun fyrirtækja á markaði og auðvitað ferðamanninum sjálfum. Einfaldasta dæmið hér er að hámarkshraði úti á þjóðvegum er 90km á klst. 
  3. Fræðsla og upplýsingagjöf en með því að fræða ferðamenn og segja þeim frá aðstæðum er hægt að hafa áhrif á hegðun þeirra, jafnvel fá þá í lið með sér en til þess þarf fræðslan að vera upplýsandi.
Ef við skoðum hvernig mætti beita þessum stýringaleiðum betur hér á landi og þá sérstaklega með það að leiðarljósi að auka öryggi og fækka atvikum er varða ferðamenn, innlenda sem erlenda.

Handstýringin felst í því að á ferðamannastöðunum sé búið að byggja upp þjónustu hvort sem hún felst í gistingu, afturkræfanlegum göngupöllum, skiltum, útsýnispöllum, stikun gönguleiða eða öðru. Það má í raun segja á einfaldan hátt séu þetta þeir innviðir sem þurfa að vera til þess að hægt sé að tryggja öryggi og um leið vernda náttúru. Víða hefur margt gott verið gert í þessum málum t.d. með framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Líklega eru þó flestir sammála um að þessi uppbygging er þó of hæg miðað við fjölda ferðamanna. Lokanir Vegagerðar má segja að flokkist undir handstýringu og eru öflug leið til að fækka þeim atvikum sem koma til kasta björgunarsveita og annara viðbragðsaðila.

Beinni stjórnun er beitt afar lítið hér á landi. Litlar sem engar kröfur eru gerðar á ferðaþjónustufyrirtæki er varða öryggismál en mörg fyrirtæki sinna þeim þó afar vel. Vakinn, gæðakerfi ferðaþjónustunnar er gott verkfæri en ennþá eru einungis nokkur tugi fyrirtækja þar. Að sama skapi er beinni stjórnun lítið beitt á ferðamennin sjálfa umfram það sem kannski tengist umferð og slíku. Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur bent á nokkrar leiðir sem mætti skoða. Má þar nefna hvort skylda ætti ferðamenn á eigin vegum, gangandi um jökla eða hálendi ákveðnum tímum árs að skilja eftir ferðaáætlun og leigja neyðarsendi. Hvorutveggja er boðið upp á hjá Safetravel, sameiginlegu verkefni félagsins, ferðaþjónustunnar, hins opinbera og fleiri hagsmunaaðila. Einnig mætti ræða hvort ákveðnir skriðjöklar landsins sem vinsælir eru ættu að vera lokaðir ferðamönnum á eigin vegum, þar á að vera skylda að vera með til þessa menntaða leiðsögumenn? Sektir ef keyrt er inn á lokaðan veg eða inn fyrir lokun Vegagerðar er aðeins 5.000 krónur samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Mætti ekki hækka þessar sektir verulega? Þeir sem fara á hæstu tinda landsins á eigin vegum ættu kannski einnig að þurfa að skilja eftir ferðaáætlun og láta landverði fara yfir búnað sinn. Slíkt þekkist ansi víða um heim.

Fræðsla og upplýsingagjöf er lykilatriði í landi þar sem aðstæður eru jafnbreytilegar og raun ber vitni. Áðurnefnt Safetravel verkefni hefur gegnt þar lykilhlutverki síðustu árin. Auk vefsíðu og fleiri verkefna má finna undir hatti verkefnsins svonefnt skjáupplýsingakerfi ferðamanna. Nú þegar er búið að setja upp hátt í 30 sjónvörp á stöðum þar sem ferðamenn eiga leið um. Á hverjum skjá má finna upplysingar um veður, færð og öryggi í næsta nágrenni þess staðar. En meira þarf til því á mörgum ferðamannastöðum þarf úrbætur. Á gríðarlega fjölmennum stöðum eins og Geysi, Gullfossi svo dæmi séu tekin er lítil eða engin landvarsla. Einnig þarf að huga að merkingum þ.e. hvernig upplýsingar um aðstæður eru settar fram til ferðalangs. “LOKAД skilti segir sitt en skilti sem þar sem á stendur “Lokað vegna ís og hálku” og jafnvel með mynd af manneskju detta fram af brún er mun líklegra til árangurs. Ekki er hægt að sleppa því að minnast á þátt allra í upplýsingagjöf. Gistiaðilar og aðrir í ferðaþjónustu gegna lykilhlutverki í að upplýsa ferðamenn um þær aðstæður sem eru á svæðinu. Ekki er nægilegt að segja frá náttúruperlum, veitingastöðum og söfnum. Um leið og sagt er frá náttúruperlu eða leiðinni að henni má segja frá hvað ber að varast.

Eins og sjá má á þessum aðferðum í stýringu ferðamanna eigum við margt ógert þó vissulega sé verið að vinna á mörgum sviðum góð verk. En margt sem getur aukið öryggi ferðamanna er hvorki flókið í framkvæmd né kostnaðarsamt. Til þess að fækka atvikum er tengjast innlendum sem erlendum ferðamönnum þarf að taka skref í stýringu ferðamanna.

Höfundur starfar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×