Skoðun

Einstakt tækifæri fyrir fjármálaráðherra

Oddný Kristinsdóttir skrifar
Í ár er 100 ára kosningaafmæli kvenna, af því tilefni voru haldnir þemadagar um jafnrétti í Háteigsskóla. Unnið var með staðalmyndir og jafnrétti á ýmsan veg, s.s. kynbundið ofbeldi, misrétti í íslensku samfélagi og kynbundinn launamun. Þar var einnig stofnað fyrsta femínistafélag grunnskóla og félagsmiðstöðva og fékk Andrea Marel, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar, hvatningarverðlaun fyrir framlag sitt til verkefnisins. Í kjölfarið sköpuðust miklar umræður á heimilinu þar sem drengir mínir tveir, 9 og 11 ára, veltu þessu viðfangsefni fyrir sér og fannst þeim með eindæmum óréttlátt að karlar fengju hærri laun en konur fyrir sambærilega vinnu.

Ég er hjúkrunarfræðingur, ákaflega stolt af minni menntun og mínu framlagi til heilbrigðiskerfisins, en tek út fyrir það að skjólstæðingar mínir þurfi að líða fyrir kjarabaráttu okkar. Síðustu viku hef ég verið að vinna á barnadeild Barnaspítala Hringsins á undanþágulista undir miklu álagi og óvissu. Óvissu sem ég vona að ljúki sem fyrst. Kröfur hjúkrunarfræðinga um launahækkun eru ekki óraunhæfar. Við erum einfaldlega að biðja um leiðréttingu launa hjúkrunarfræðinga svo þau verði sambærileg launum annarra háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Samanburður við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá hinu opinbera sýnir að laun hjúkrunarfræðinga eru 14-25% lægri en dagvinnulaun sambærilegra stétta. Eins og formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur margoft bent á virðist eina skýringin á þessum launamun vera að um kvennastétt er að ræða. Er það sanngjarnt? Það þykir sonum mínum ekki.

Í ár höldum við íslenska þjóðin upp á 100 ára kosningaafmæli kvenna. Með kosningarétti kvenna var stórt skref stigið í jafnréttissögu Íslendinga. Á 100 ára afmælinu fær núverandi ríkisstjórn einstakt tækifæri til að taka annað stórt skref: Leiðrétta kynbundinn launamun með réttlátum kjarasamningi við stærstu heilbrigðis- og kvennastétt Íslands. Ég er í eðli mínu bjartsýn manneskja og hef fulla trú á því að fjármálaráðherra taki við hvatningarverðlaunum þetta árið fyrir framlag sitt til jafnréttis. Um leið gerir hann hjúkrun að vænlegri starfsvettvangi fyrir þá sem standa frammi fyrir vali á menntun og starfsframa, þar á meðal drengina mína.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×