Skoðun

Varúð – logavinna!

Garðar H. Guðjónsson og Kristján Jens Kristjánsson skrifar
Veruleg hætta getur skapast þegar iðnaðarmenn og ófaglærðir eru fengnir í fyrirtæki til að vinna svonefnda logavinnu eða heita vinnu. Fjölmörg dæmi eru um að svo ógætilega sé farið að stórtjón hljótist af. Þetta á ekki síst við þegar unnið er með opinn eld á þökum. Ábyrgð þeirra sem taka að sér slík verkefni er mikil en að sama skapi er vert að benda á ábyrgð eigenda og umsjónarmanna húsnæðisins.

Auk logavinnu vegna lagningar þakpappa má nefna logsuðu, rafsuðu og skurð með slípirokk í þessu sambandi. Starfsmenn slökkviliða og tryggingafélaga þekkja mörg dæmi um að reglur um eldvarnir við logavinnu séu virtar að vettugi, stundum með skelfilegum afleiðingum. Stundum sleppa menn þó fyrir horn. Oft eru að verki menn sem skortir þekkingu á því hvernig eldur getur kviknað og breiðst út.

Eldvarnir og öryggi

Afar mikilvægt er fyrir eigendur og umsjónarmenn fasteigna að hafa vara á þegar vinna þarf heita vinnu í húsnæði þeirra, hvort sem um er að ræða íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Raunar ætti logavinna aldrei að hefjast nema ábyrgðarmaður húsnæðis hafi gengið úr skugga um að nægilega sé gætt að eldvörnum og öryggi. Sé ekki rétt staðið að verkinu getur mikið tjón á eignum og rekstri hlotist af.

Í þessu sambandi þarf að huga að nokkrum lykilatriðum:

Að minnsta kosti tvö slökkvitæki þurfa að vera til taks.

Fjarlægja á brennanleg efni, verja þau eða bleyta.

Mikilvægt er að viðkomandi noti viðeigandi hlífðarbúnað.

Vinna hefjist ekki nema svæðið sé öruggt og tryggt sé að fyllstu varúðar sé gætt.

Áríðandi er að höfð sé brunavakt á meðan á vinnu stendur og í að minnsta kosti 60 mínútur að henni lokinni. Fjölmörg þekkt dæmi eru um að eldur hafi komið upp þegar logavinnu er lokið og mannskapurinn farinn af svæðinu.

Eldvarnabandalagið

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir bæði á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Eitt helsta áhersluverkefni Eldvarnabandalagsins á næstu vikum og mánuðum verður að þrýsta á um úrbætur og grípa til aðgerða til að draga úr áhættu vegna heitrar vinnu. Í ljósi ítrekaðra eldsvoða vegna logavinnu með tilheyrandi tjóni og kostnaði er sannarlega engin vanþörf á aðgerðum.




Skoðun

Sjá meira


×