Innlent

Bráðamóttakan fer nærri 15 milljónir fram úr áætlun í hverjum mánuði

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Páll sagði stærstu áskorun Landspítalans vera gagnvart fólki sem ekki á afturkvæmt í heimahús eftir legu á spítala.
Páll sagði stærstu áskorun Landspítalans vera gagnvart fólki sem ekki á afturkvæmt í heimahús eftir legu á spítala. Vísir/Valli
„Bráðamóttakan hefur farið nærri 15 milljónir fram úr áætlun hvern mánuð ársins fram að þessu vegna þess að kalla hefur þurft út fjölda auka starfsfólk á hverja vakt. Þetta er rekstrarvandi fyrir spítalann og öryggisógn fyrir sjúklingana,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans á ársfundi Landspítalans sem var haldinn var í dag undir yfirskriftinni „Uppbygging í augnsýn“.

Fram kom á fundinum að rekstur spítalans gekk betur í fyrra en árið áður, þó enn sé hallarekstur. Halli á rekstri spítalans lækkaði úr 3,5 prósentum í 1,4 prósent sem hlutfall af heildartekjum spítalans. Rektrargjald hækkaði þó um 8,6 prósent á milli ára.

Páll fjallaði um framtíð spítalans og þær áskoranir sem framundan eru. „Meginhlutverk Landspítalans er að veita landsmönnum örugga og góða heilbrigðisþjónustu. Um helmingur sjúklinga Landspítalans á hverjum tíma er eldri en 67 ára og mun sá hópur vaxa með árunum,“ segir Páll.

Ný nálgun nauðsynleg

Hann segir þá stærstu áskorunina vera gagnvart þeim vaxandi hópi fólks sem ekki á afturkvæmt í heimahús eftir legu á spítala og lagði þá helst áherslu á aldraða. „Það er talið kosta 30 milljónir að byggja eitt hjúkrunarrými og 10 milljónir á ári að reka það. Miðað við aldursdreifinu Íslendinga fram til 2050 er ljóst að við munum ekki ráða við það að fjármagna þetta,“ segir Páll. Hann telur að því þurfi nýja nálgun með því að nýta nútímatækni og aðstandendur í meira mæli.

Páll skýrði frá því í ræðu sinni að framundan væri vinna við lokahönnun meðferðarkjarna við Hringbraut, en strax í júní sé fyrirhugað að framkvæmdir hefjist vegna sjúklingahótels á lóð Landspítalans. Hann sagði að ljóst væri að stjórnvöldum væri full alvara um að byggja upp heilbrigðiskerfið.

Páll fjallaði einnig um verkfallið og biðlaði til samningsaðila beggja megin borðsins að ganga sem fyrst frá samningum til að tryggja öryggi sjúklinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×