Innlent

Húnaþing sakar ríkið um eignaupptöku

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sveitarstjórn Húnaþings er óánægð með vinnubrögð Óbyggðanefndar.
Sveitarstjórn Húnaþings er óánægð með vinnubrögð Óbyggðanefndar. Fréttablaðið/GVA
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra lýsir yfir óánægju sinni með vinnubrögð íslenska ríkisins í þjóðlendumálinu almennt og þá stórfelldu eignaupptöku sem þar fer fram,“ segir í bókun vegna úrskurðar Óbyggðanefndar varðandi Húnavatnssýslur vestan Blöndu ásamt Skaga.

Samkvæmt úrskurði Óbyggðanefndar teljast austurhluti Víðidalstunguheiðar, landsvæði sunnan Víðidalstunguheiðar, Húksafréttur og Staðarhreppsafréttur til þjóðlendna.

„Þrátt fyrir að niðurstaðan sé vonbrigði ber að hafa í huga að úrskurðurinn er í fullu samræmi við úrskurði sambærilegra svæða,“ segir sveitarstjórnin og vísar jafnframt til „eindreginna ráðlegginga“ lögfræðings sveitarfélagsins um að una úrskurðinum. Hins vegar sé áskilinn réttur til að taka málið upp að nýju ef ný gögn koma fram.

Einn sveitarstjórnarmanna var á móti þessari afgreiðslu. „Elín R. Líndal greiðir atkvæði gegn tillögunni. Og mótmælir með því framgöngu Óbyggðanefndar/ríkisins, sem hefur frá upphafi sýnt ótrúlega framgöngu í þjóðlendumálum. Þar sem meðal annars eru ekki virtir þinglýstir kaupsamningar. Slík framganga er að áliti Elínar hrein eignaupptaka,“ segir í bókun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×