Innlent

Þeim sem kaupa sína fyrstu íbúð hefur fjölgað ört

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Íbúðakaupendum fjölgar ár frá ári
Íbúðakaupendum fjölgar ár frá ári vísir/vilhelm
Hlutfall þeirra sem kaupa sér íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn af heildarfjölda íbúðakaupenda á landinu öllu hefur hækkað úr rúmum 7,5% árið 2009 í 17,8% árið 2014. Tölur það sem af er þessu ári benda til þess að hlutfall þeirra sem kaupa í fyrsta sinn haldi áfram að hækka. Þetta kemur fram í samantekt sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra óskaði eftir frá Þjóðskrá. 

Teknar voru saman upplýsingar um kaupsamninga vegna íbúðarkaupa á landinu öllu og hlutfall kaupsamninga þeirra sem voru að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Upplýsingarnar taka til áranna 2008 – 2015 og eru sundurgreindar eftir landsvæðum. Þróunin er alls staðar svipuð. Íbúðakaupendum fjölgar ár frá ári og jafnframt hækkar stöðugt hlutfall þeirra sem eru að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti.

Skoðað var tímabilið frá 1. Janúar 2008 til 24. Mars 2015. Árið 2008 var farið að veita afslátt af stimpilgjöldum við fyrstu húsnæðiskaup og þá varð til möguleikinn að skoða fjölda þeirra sem voru að kaupa húsnæði í fyrsta sinn.

Á tímabilinu öllu voru gerðir 66.444 kaupsamningar á öllu landinu og voru 9040  vegna fyrstu íbúðarkaupa eða 13,6%. Árið 2009 voru kaupsamningar á landinu öllu tæplega 6.000 og hlutfall fyrstukaupenda um 7,5%. Árið 2014 voru kaupsamningar samtals um 11.500 og þar af var hlutfall þeirra sem voru að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti 17,8%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×