Innlent

Þörf á aðhaldsaðgerðum í Hafnarfirði

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Mikilvægt er að minnka útgjöld og greiða niður skuldir Hafnarfjarðarbæjar. Ársreikningur sveitarfélagsins, sem samþykktur var á fundi fyrr í kvöld, sýnir að fjárhagsstaða Hafnarfjarðar er áfram erfið. Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að rekstrarniðurstaða ársins hafi einungis verið jákvæð um 76 milljónir króna. Það er ekki í samræmi við aðlögunaráætlun sem gerð var með samningi við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

„Þetta getur haft þau áhrif að vextir hækki tímabundið þar sem veltufé frá rekstri nær ekki þeim viðmiðunum sem sett voru sem skilyrði í samningum um endurfjármögnun erlendra lána.  Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 492 millj. kr. Samanborið við að fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að upphæð 216 millj. kr.“

Áætlunin gerði ráð fyrir 619 milljóna króna rekstrarafgangi, eins og áður segir var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 76 milljónir.

„Þetta frávik má m.a. rekja til hækkunar á  lífeyrisskuldbindingu sveitarfélagsins, um 928 milljónir króna, sem er 515 milljónir umfram áætlun.  Einnig hefur ráðgjafa- og lántökukostnaður vegna endurfjármögnunar, alls 156 milljónir króna, sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum, áhrif á niðurstöðuna,“ segir í tilkynningunni frá Hafnarfjarðarbæ.

Þá þurfti sveitarfélagið að greiða ríkinu 15 prósenta fjármagnstekjuskatt vegna niðurstöðu dóms Hæstaréttar. Fjárhagsáætlunin gerði ráð fyrir tíu prósenta fjármagnstekjuskatt. Þar að auki þurfti að borga vexti vegna sölu á eignarhluta í HS Orku hf. á árinu 2008, samtals 333 milljónir króna.

Tekjur umfram áætlun

Alls námu tekjur Hafnarfjarðarbæjar 19.648 milljónum króna og er það 418 milljónum umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld eru stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins og námu 9.985 milljónum króna sem er 442 milljónum krónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Annar kostnaður var 7.163 milljónir sem er 230 milljónum króna umfram áætlun. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og óreglulega liði nam 1.634 milljónum króna.

Fjármagnsliðir námu 1.226 milljónum króna sem er 67 milljónum umfram áætlun. Veltufé frá rekstri nam um 1.593 milljónum króna sem er 478 milljónum lægra en áætlun gerði ráð fyrir.

„Rekstur málaflokka gekk vel og var í takt við áætlun. Stjórnendur stofnana eiga hrós skilið fyrir hvernig til hefur tekist við að halda fjárhagsáætlunum. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 8.748 milljónum króna. Til félagsþjónustu var varið um 2.637 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála var varið um 1.599 milljónum króna. Heildareignir í lok árs námu samtals 48.198 milljónum króna og hafa þær lækkað um 285 milljónir milli ára og heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 39.766 milljónum króna.“

Veltufjárhlutfall óásættanlegt

Endurskoðendur reikninga bæjarins vöktu sérstaklega athygli á veltufjárhlutfalli og skuldastöðu sveitarfélagsins.

„Neikvæð rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs upp á 492 milljónir króna og veltufjárhlutfall 0,23% er óásættanlegt. Einnig eru fjármagnsgjöld verulega íþyngjandi en þau nema 6,2% af tekjum sveitarfélagsins, eða um 1.2 milljarði króna, sem er afar hátt hlutfall.“

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar telur að góðar forsendur séu fyrir því að snúa fjármálum bæjarins til betri vegar verði rétt að málum staðið og tekið á hlutunum af ábyrgð og festu.

„Meðal annars er mikilvægt að styrkja stoðirnar, laða að fyrirtæki og íbúa til að auka umsvif og þar með tekjur bæjarins. Stærsta viðfangsefnið í stjórnun sveitarfélagsins á næstunni  verður þó að ná betri tökum á útgjöldum og niðurgreiðslu skulda. Vonir eru bundnar við að rekstrarúttekt á stofnunum bæjarins og tillögur í kjölfar hennar muni hafa jákvæð áhrif á fjárhag Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar. Mikilvægt er að skapa svigrúm til lækkunar á gjöldum og álögum sveitarfélagsins, viðhalda eða auka þjónustu og hefja uppbyggingu fyrir eigið fé til hagsbóta fyrir bæjarbúa alla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×