Innlent

Sátu hjá við atkvæðagreiðslu um dýrahald á veitingastöðum: „Krúttleg tillaga“

Birgir Olgeirsson. skrifar
Guðfinna Jóhanna og Sveinbjörg Birna.
Guðfinna Jóhanna og Sveinbjörg Birna. Vísir/Aðsend/Aðsend
Meirihluti borgarstjórnar samþykkti í tillögu Hildar Sverrisdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að beina því til ríkisvaldsins að sveitarfélögum verði í sjálfsvald sett hvernig þau haga reglum um hollustuhætti og matvæli.

Með tillögunni vill Hildur leyfa eigendum kaffihúsa, veitingastaða og annarra samkomustaða að hafa svigrúm til að leyfa dýrahald ef þeir óska. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna og tóku ekki þátt í umræðu um tillöguna. Því lá afstaða þeirra ekki fyrir hvers vegna þær sátu hjá.

Magnús Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því á samfélagsmiðlinum Twitter að hann hefði spurt Guðfinnu hvers vegna hún hefði ákveðið að sitja hjá við atkvæðagreiðslu og hafði það eftir henni að hún „hataði hunda og ketti“.

Í samtali við Vísi segir Guðfinna Magnús ekki hafa rétt eftir sér. „Það er ekki ástæðan fyrir því að ég sat hjá og það er ekki rétt eftir mér haft,“ segir Guðfinna sem sjálf hefur átt hund og segir Sveinbjörgu Birnu eiga kött.

„Í mínum huga snýst þetta um að margir eru hræddir við hunda og eru með ofnæmi. En þetta er alveg krúttleg tillaga,“ segir Guðfinna sem á barnabarn sem er með ofnæmi fyrir köttum. „Það hefur oft verið vandamál eða vera með barnabarnið þar sem eru kettir,“ segir Guðfinna en sjálf er hún með ofnæmi fyrir köttum en setur það ekki fyrir sig.

„Það hefur yfirleitt verið viðloðandi Framsóknarflokkinn að vera sveitaflokkur þannig að honum ætti að vera umhugað um dýrin,“ segir Guðfinna og hlær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×