Innlent

Vefjagigt er samfélagsvá

Linda Blöndal skrifar
Arnór Víkingsson gigtarlæknir segir vefjagigt mikla samfélagsvá og mikið tapist með því að sinna ekki sjúklingum með þennan sjúkdóm. Rúmlega fimmtungur allra kvenna sem þiggja örorkubætur eru með sjúkdóminn, sem er ein af þremur algengustu ástæðum örorku á Íslandi í dag. Sex hundruð manns bíða eftir greiningu hér á landi.  

Margir illa haldnir og óvinnufærir 

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skrifaði í síðasta mánuði undir nýjan samning við fyrirtækið Þraut ehf. sem hefur sérhæft sig í greiningu og endurhæfingu vegna vefjagigtar frá árinu 2011 með bráðabirgðasamningi við ríkið. Nýji samningurinn er til eins árs með möguleika á endurnýjun til annars árs. Arnór er einn þriggja stofnenda fyrirtækisins og segir mjög marga illa haldna árum saman og dottna útaf vinnumarkaði vegna vefjagigtar.

Auk Arnórs eru stofnendur Þrautar tveir aðrir sérfræðingar, Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur og Eggert S. Birgisson sálfræðingur. Fyrirtækið sinnir þjónustu á mörgum sviðum fyrir sjúklingana eða með teymisvinnu.

Fordómar gagnvart sjúklingum 

Vefjagigt var fyrst skilgreind sem sjálfstæður sjúkdómur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni árið 1993. Sjúkdómurinn er krónískur og ólæknandi. Einkennin eru sífelldir verkir víða um líkamann og yfirþyrmandi þreyta með tilheyrandi andlegum og félagslegum afleiðingum, einbeitingarskorti og minnisleysi. Fordómar hafa verið gagnvart sjúkdómnum en orsakir oft tengdar líkamlegu og andlegu álagi en mögulega líka erfðum.  

Sex hundruð á biðlista 

„Það sýndi sig að samningurinn frá árinu 2011 var engan vegin að anna eftirspurn. Á þeim tíma vorum við að sjá tvö hundruð sjúklinga á ári í greiningu og mati og um hundrað í endurhæfingu. En nú er búið að breyta þessum samningi svo við getum séð allt upp í 280 manns á ári í greiningu og upp undir 200 í endurhæfingu,“ sagði Arnór í samtali við fréttir á Stöð 2 í dag. Hann sagði jafnframt að það væru um sex hundruð manns á biðlista eftir greiningarviðtali. 

Tíu þúsund konur með sjúkdóminn 

„Vefjagigt er verkjasjúkdómur sem er fyrst og fremst í verkjakerfinu sem virkar ekki eðlilega þannig að fólk fær óhóflega mikla verki við frekar lítið tilefni og þessum verkjum fylgja oft mikil þreyta og orkuleysi og miklar svefntruflanir,“ segir Arnór og enn fremur að þetta sé mjög alvarleg samfélagsvá, eins og hann orðar það sjálfur.

„Það er talað um að það sé kannski tvö til fjögur prósent fullorðinna sé með vefjagigt sem eru sennilega of lágar tölur. Þetta er talsvert algengara hjá konum og við erum sennilega með yfir tíu þúsund konur hér á landi með vefjagigt,“ sagði Arnór. „Þetta er hálfgerð fötlun og fólk er oft í felum með sjúkdóminn af skömm.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×