Skoðun

Hver er læknirinn þinn?

Arna Guðmundsdóttir skrifar
Ef þú getur svarað þessari spurningu ertu í hópi þeirra heppnu Íslendinga sem hafa skráðan heimilislækni eða ert í nægilega góðu sambandi við sérfræðilækninn þinn til að geta kallað hann til ábyrgðar þegar á bjátar. Það er nefnilega tvöfalt heilbrigðiskerfi hér á landi, þeirra sem hafa sinn lækni og þeirra sem hafa engan. Seinni hópurinn er stór og fer stækkandi. Hvers vegna? Vegna þess að heilsugæslan á Íslandi er vanrækt.

Nýliðun í stétt heimilislækna er langt undir því sem telst eðlilegt. Á sama tíma sýna kannanir sem gerðar hafa verið meðal læknanema að áhugi þeirra á heimilislækningum er lítill. Það er vandamál. Það er líka vandamál að heilu byggðarlögin á landsbyggðinni séu mönnuð af farandlæknum. Læknum sem búa ekki í byggðarlaginu og þekkja ekki íbúana. Þau eru fleiri, vandamálin í heilbrigðiskerfinu. Mörg þeirra eru orðin vel þekkt eftir erfiða kjarabaráttu lækna sem stóð í marga mánuði í vetur til að reyna að rétta af kúrsinn. Hvort það mun takast á eftir að koma í ljós. Þó samningar hafi tekist er svo margt fleira sem þarf að laga í vinnufyrirkomulagi lækna til að tryggja endurnýjun mannaflans og fullnægjandi þjónustu fyrir sjúklinga.

Heilbrigðisráðherra hefur sett á laggirnar verkefnastjórn til þess að vinna að breytingum á íslenska heilbrigðiskerfinu í samráði við lækna. Viljayfirlýsing hefur verið undirrituð um sameiginleg markmið og er það vel. Þegar þessi vinna er að hefjast er sérstaklega mikilvægt að allir tali sama tungumálið. Að læknar, almenningur og stjórnmálamenn skilji hvert annað og rugli ekki saman hugtökum um ólík rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni.

Einn liður í sameiginlegri yfirlýsingu stjórnvalda og lækna hljómar svo: „Opna þarf möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum sem byggja á virkri þjónustu- og verkefnastýringu, skýrum gæðakröfum samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi.“ Þarna er opnað á þann möguleika að heimilislæknar geti rekið læknastofur sínar sjálfir líkt og sérfræðingar í öðrum sérgreinum læknisfræðinnar, t.d. lyflæknar, geðlæknar og skurðlæknar. Dæmi um slíkar einkareknar heimilislæknastöðvar eru t.d Salastöðin í Kópavogi og Heilsugæslan í Lágmúla. Þróun sem þessi hefur orðið í öllum löndunum í kringum okkur, Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Einkarekstur

Einkarekstur samhliða opinberum rekstri hefur tíðkast áratugum saman hér á landi á afar farsælan hátt. Nefna má mýmörg dæmi, ég læt hér duga að benda á Röntgen Domus, Orkuhúsið, Læknasetrið og Augnlækna Reykjavíkur. Einfaldari aðgerðir eru gerðar á einkareknum starfsstofum lækna með minni yfirbyggingu en á LSH. Sjúklingum er ekki mismunað eftir efnum. Þeir greiða sjúklingahlutann, sjúkratryggingar greiða afganginn. Þessar starfsstofur lækna hafa ekki grafið undan þjónustu LSH heldur veitt spítalanum heilbrigða samkeppni. Á síðasta ári sinntu sjálfstætt starfandi læknar um 460.000 komum.

Það er umtalsverður hluti heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Læknar sem starfa sjálfstætt reka sjálfir starfsstofur sínar. Þeir eru ekki starfsmenn þriðja aðila sem fjárfest hefur í heilbrigðisrekstri. Það hefur ekki orðið nein stefnubreyting hjá Læknafélagi Reykjavíkur hvað þetta varðar. Þar er ekki áhugi fyrir einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar þar sem fjárfestar kaupa læknastofur og krefjast af þeim arðsemi. Það er ekki heldur áhugi fyrir því að sjúklingar þurfi að kaupa sér viðbótartryggingar af einkareknum tryggingafélögum sem skráð eru á markað til að geta greitt fyrir heilbrigðisþjónustu. Læknafélag Íslands telur að heilbrigðisþjónusta eigi að greiðast af sjúklingagjöldum annars vegar og Sjúkratryggingum Íslands hins vegar.

Vegna kostnaðar við heilbrigðisþjónustu er æskilegt að hún sé veitt sem mest án innlagnar á sjúkrahús og að hún sé samfelld og persónuleg. Frá árinu 1936 hafa Læknafélag Reykjavíkur og Tryggingastofnun ríkisins (nú Sjúkratryggingar Íslands) samið um þjónustu sérfræðilækna við sjúkratryggða. Þessi samningur hefur tryggt landsmönnum greiðan aðgang að bestu sérfræðiþjónustu sem völ er á hér á landi og tryggt jöfnuð án tillits til efnahags. Um þetta fyrirkomulag hefur verið pólitísk sátt.

Í allri umræðu um framtíðarrekstur heilbrigðiskerfisins er hér með lagt til að þeir sem tjá sig um einkareknar læknastofur á Íslandi skilji á milli einkareksturs þar sem ríkið greiðir að hluta fyrir þjónustu skv. fyrirfram ákveðnum samningi með greiðsluhámarki í þágu sjúklings og hins vegar einkavæðingar þar sem gjaldskrá læknis er frjáls og sjúklingur þarf að leita annarra leiða til að greiða fyrir komu s.s. með einkatryggingu sem ekki hefur skapast hefð fyrir hérlendis.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×