Skoðun

Framsýnn og jákvæður Jón Atli

Hjördís Sigurðardóttir og Gunnar Jakob Briem skrifar
Það er ástæða til að vekja athygli stúdenta við Háskóla Íslands á framlagi Jóns Atla Benediktssonar til framþróunar vísinda- og kennslumála í Háskóla Íslands á undanförnum árum og áratugum. Jón Atli hóf störf hjá Háskóla Íslands árið 1991 eftir að hafa lokið doktorsprófi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Purdue háskóla í Indianafylki í Bandaríkjunum. Hann skaraði fljótt fram úr við rannsóknir og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Hann er afkastamikill fræðimaður sem nýtur virðingar innanlands og á alþjóðavettvangi.

Jón Atli er meðal fremstu vísindamanna heims í fjarkönnun og stafrænni myndvinnslu, sem er svið innan rafmagns- og tölvuverkfræðinnar. Eins og orðið gefur til kynna þá gengur fjarkönnun út á að kanna eitthvað úr fjarlægð til þess að geta greint minnstu smáatriði. Hvort sem viðfangsefnið er mynd úr gervitungli eða smásjármynd af augnbotnum þá er markmiðið aukin þekking og framþróun í faginu. Framlag Jóns Atla hefur stuðlað að framförum í heilbrigðistækni og landupplýsingakerfum svo dæmi séu tekin.

Verk Jóns Atla sýna að fulltrúar lítilla þjóða hafa alla burði til að koma hugmyndum sínum og rannsóknum á framfæri á alþjóðavettvangi. Jón Atli hefur helgað líf sitt framgangi vísinda- og tæknistarfs á Íslandi og er einn afkastamesti vísindamaður Háskóla Íslands, hvort sem litið er til rannsóknarstarfa hans eða setu í nefndum og ráðum til eflingar rannsóknarstarfs á Íslandi. Einnig hefur hann gegnt trúnaðarstörfum í alþjóðlega fræðasamfélaginu og setið í ritstjórn alþjóðlegra fagtímarita.

Þeir sem hafa unnið með Jóni Atla hafa kynnst hæfileikum hans á mörgum ólíkum sviðum. Sem leiðbeinandi heldur Jón Atli góðri yfirsýn yfir rannsóknarefnin. Hann gefur nemendum sínum góð ráð með hliðsjón af því sem er efst á baugi í alþjóðlegu samstarfi og er glöggur á tækifæri til framlags í vísindavinnu. Sem stjórnandi er hann framsýnn og skipulagður, með skarpa sýn á markmiðin og leiðir til að ná þeim. Sem manneskja er hann einstaklega hvetjandi, jákvæður og geðprúður og við þekkjum hann að góðu einu.

Við hvetjum því starfsmenn og stúdenta við Háskóla Íslands til að greiða Jóni Atla Benediktssyni atkvæði sitt í rektorskosningum, sem fara fram þann 13. apríl næstkomandi.




Skoðun

Sjá meira


×