Innlent

„Óskynsamleg viðskipti“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði segist ekki skilja hvernig sveitastjórnir gátu reiknað það út að hagkvæmt væri að færa fasteignir sínar inn í eignarhaldsfélag og síðan leigja þær aftur. Reynslan sýni að ákvörðunin var í besta falli óskynsöm.

Þegar mest var áttu 12 sveitarfélög um allt land í viðskiptum við Eignarhaldsfélagið Fasteign. Öll sveitarfélögin hafa hinsvegar nýtt sér ákvæði í samningunum sem gerði þeim kleift að kaupa fasteignir sínar til baka, öll nema Reykjanesbær sem enn leigir fasteignirnar af félaginu.

Fjölmörg sveitarfélög ákváðu þó á sínum tíma að sjá áfram um sínar fasteignir, þar á meðal Ísafjörður.„Við sáum að þetta gat verið hagkvæmt fyrstu árin en svo kom fljótlega skurðpunktur sem var algjörlega óyfirstíganlegur eftir svona 5-7 ár ef ég man rétt,“ segir Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðar og núverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Má segja að sveitarfélög hafi látið glepjast af gylliboði?“

„Ég held að hvert og eitt sveitarfélag hafi reiknað þetta fyrir sig og komist að niðurstöðu um að þetta gæti verið skynsamlegt. Ég veit ekki hvers vegna.“

Ekki liggur fyrir hvað sveitarfélög töpuðu á þessum viðskiptum en ljóst er að um háar fjárhæðir er að ræða. Halldór segir að raun sé um að ræða viðskiptamódel sem gat ekki gengið upp.

„Aðrir fundu út að þetta gat gengið upp en reynslan hefur skorið úr um að þetta var ekki skynsamlegt,“ segir Halldór.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×