Innlent

Barist gegn brotum á reglum um vinnutíma

Ingvar Haraldsson skrifar
Vinnueftirlitið hefur grun um að starfsfólk í ferðaþjónustu vinni of mikið.
Vinnueftirlitið hefur grun um að starfsfólk í ferðaþjónustu vinni of mikið. vísir/gva
Vinnueftirlitið er farið af stað með átak til að reyna að tryggja að reglur um vinnutíma starfsfólks í ferðaþjónustu séu virtar.

Sigfús Sigurðsson, fagstjóri í þróunar- og eftirlitsdeildar hjá Vinnueftirlitinu, segir vísbendingar um að starfsfólk innan ferðaþjónustunnar sé látið vinna lengur en reglur heimila. „Þegar mesta álagið hefur verið hefur komið í ljós að starfsmenn vinna ansi langan vinnudag. Vinnueftirlitið hefur fengið ábendingar frá starfsmönnum um að þeir séu látnir vinna of lengi,“ segir Sigfús.

Stofnunin hyggst á næstu vikum kalla eftir upplýsingum um vinnutíma frá völdum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. „Ef einhverjar ábendingar koma mun því verða sinnt sérstaklega,“ bætir Sigfús við.

Vinnueftirlitið hefur þegar sent dreifibréf til aðila í ferðaþjónustunni þar sem bent er á að starfsmenn skuli fá að minnsta kosti minnsta kosti ellefu klukkustunda samfellda hvíld á sólarhring. Starfsmenn eigi jafnframt rétt á að minnsta kosti einum frídegi í viku. Vinnutími með yfirvinnu skuli ekki fara yfir 48 klukkustundir á viku að jafnaði á fjögurra mánaða tímabili.

Þá er einnig bent á að einstaklingar undir átján ára megi ekki vinna ákveðin störf nema gert hafi verið sérstakt áhættumat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×