Innlent

Mál BHM gegn ríkinu tekið fyrir í Hæstarétti 10. ágúst

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM og Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM og Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM. vísir/ernir
Mál Bandalags háskólamanna gegn íslenska ríkinu mun verða flutt í Hæstarétti þann 10. ágúst næstkomandi. BHM áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll þann 15. júlí síðastliðinn en það var mat dómsins að íslenska ríkinu hafi verið heimilt að setja lög á verkföll BHM, líkt og gert var þann 13. júní.

Málið fékk flýtimeðferð fyrir héraðsdómi og fær það einnig fyrir Hæstarétti.

Í tilkynningu frá BHM kemur fram að það sé mat félagsins  að nauðsynlegustu heilbrigðis-og öryggisþjónustu hafi verið sinnt í verkföllunum „og að engin slík vá hafi verið fyrir dyrum að réttlætti svo víðtæka íhlutun í stjórnarskrárvarin réttindi sem lagasetningin er.

Það er jafnframt mat BHM að standi stjórnvöld frammi fyrir raunverulegri neyðarstöðu sem þeim beri skylda til að aflétta, og verði í því skyni að takmarka mannréttindi, þá leiði stjórnskipuleg meðalhófsregla til þess að slík takmörkun verði að vera eins umfangslítil og skerða mannréttindi eins lítið og framast er unnt.

Úrlausn héraðsdóms um að heimila ótímabundna sviptingu samningsfrelsis og verkfalls-réttar fjölda stéttarfélaga sem ekki einu sinni voru í verkfalli stenst að mati BHM ekki slíka stjórnskipulega meðalhófsreglu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×