Innlent

Mikil aukning á bálförum

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Þórsteinn segir aukningu mjög bundna við höfuðborgarsvæðið.
Þórsteinn segir aukningu mjög bundna við höfuðborgarsvæðið. Vísir
Gríðarleg aukning hefur orðið á bálförum síðustu áratugi, en á síðasta ári voru rúm 27 prósent útfara á landinu bálfarir. „Þessi aukning er þó mjög bundin við höfuðborgarsvæðið og sveitafélög hér í kring,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur. Árið 2014 voru 40 prósent útfara á höfuðborgarsvæðinu bálfarir.

„Þessi breyting er líklega vegna áhrifa frá löndum sem við miðum okkur við, líkt og Norðurlöndin, þar sem líkbrennsla er í töluverðum meirihluta. Þar er hlutfallið í raun mun hærra en hér, þó það sé að aukast mikið hér á landi,“ segir Þórsteinn. Hlutfall bálfara var aðeins fimm prósent af heildartölu látinna árið 1969.

Þórsteinn segir að ekki sé neinn verðmunur á bálförum og kistugröfum. „Það kostar ekkert að láta brenna sig, en það þarf einnig kistu fyrir það. Fólk er því ekki að spara með þessu,“ segir Þórsteinn.

Þórsteinn segir einnig að með fallegri duftgörðum hugnist fólki vel að láta brenna sig. „Duftker taka minna pláss en kistur og margir sem hugsa um það. Það eru því ákveðin umhverfissjónarmið sem fylgja þessu,“ segir Þórsteinn.

Duftgarðarnir sem eru í boði eru Sólland við Öskjuhlíð, Kópavogskirkjugarður og Gufuneskirkjugarður. Einnig er duftreitur við Fossvogskirkju sem er fullsettur og því aðeins grafið í frátekin svæði. „Einnig hefur aukist að fólk grafi duftker ofan á kistugrafir með leyfi fjölskyldunnar. Þá er hægt að koma mjög mörgum duftkerum fyrir og myndar það hálfgerðan fjölskyldugrafreit,“ segir Þórsteinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×