Innlent

Geitburði lokið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Atli Ísleifsson skrifar
Krakkarnir voru ánægðir að kynnast kiðlingunum.
Krakkarnir voru ánægðir að kynnast kiðlingunum. Mynd/Reykjavíkurborg
Geitburði er lokið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og komu alls þrettán kiðlingar í heiminn undan níu huðnum.

Í tilkynningu frá garðinum segir að hafurinn Djákni sé faðir allra kiðlinganna og virðist lítið kippa sér upp við nýorðið ríkidæmi sitt og láti huðnunum eftir uppeldið.

„Fram að geitburði var aðeins einn hafur í fjárhúsinu í garðinum en nú er þar karlpeningurinn í meirihluta þar sem í kiðlingahópnum eru 12 hafrar en aðeins ein huðna.

Kiðlingarnir og huðnurnar fengu nýlega heimsókn frá fróðleiksfúsum nemendum í leikskólunum Heiðarborg og Rauðhól.  Ekki var annað að sjá en að bæði krakkarnir og kiðlingarnir hefðu mikið gaman af samverunni.

Nú þegar geitburði er lokið tekur við bið eftir sauðburði en búast má við að hann hefjist í byrjun maí. Í garðinum eru 8 lembdar ær og faðirinn er hrúturinn Grámann,“ segir í tilkynningu frá garðinum.

Mynd/Reykjavíkurborg
Mynd/Reykjavíkurborg
Mynd/Reykjavíkurborg
Mynd/Reykjavíkurborg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×