Innlent

Legurýmin ekki nýtt og íbúarnir örvænta

Peninga vantar til að reka legurými sem því standa tóm á Hvammstanga.
Peninga vantar til að reka legurými sem því standa tóm á Hvammstanga.
Ekki er til fjármagn til að fullnýta legurými á heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga. Þess í stað hafa íbúar í Húnaþingi vestra þurft að nota legurými á Akranesi, í Reykjavík eða á Akureyri, sem er töluvert dýrara rými.

„Íbúarnir eru orðnir þreyttir á ástandinu og hálfgerð örvænting er komin upp hjá sumum íbúum sveitarfélagsins,“ segir Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra.

Heilbrigðisstofnunin á Hvammstanga hefur á að skipa legurýmum fyrir um 20 einstaklinga. Sautján af þeim eru hins vegar aðeins nýtt því ekki fæst fjármagn frá hinu opinbera til að bæta við starfsfólki. Að mati Guðnýjar er samt sem áður undirmannað á heilbrigðisstofnuninni þrátt fyrir að aðeins 17 rými séu nýtt.

„Við höfum séð dæmi þess að einstaklingar hafi þurft að liggja annars staðar á landinu. Það er auðvitað mjög erfitt fyrir bæði einstaklinginn sem og alla aðstandendur. Þú skreppur ekki á Akranes eða til Reykjavíkur eftir vinnu til að hitta þann sem þér er nákominn,“ segir Guðný Hrund.

Guðný Hrund Karlsdóttir.
Eðvald Daníelsson, íbúi á Hvammstanga, segir þetta ástand ólíðandi. Það hafi til dæmis haft mikil áhrif á hans fjölskyldu.

„Móðir mín, sem verður 85 ára á þessu ári, þarf aðstoð við allar daglegar þarfir og það leggst á okkur fjölskyldumeðlimi að aðstoða hana allan tíma sólarhringsins. Þetta álag á okkur er mjög mikið. Faðir minn fór að finna fyrir hjartveilu fyrir skömmu og rek ég það til álags sem á hann er lagt. Á meðan er ekki allt rými fullnýtt á heilbrigðisstofnuninni í bænum. Fyrir mína parta þá gengur þetta ekki upp til lengdar,“ segir Eðvald.

Guðný Hrund telur að það þurfi ekki að ráða nema tvo starfsmenn í umönnun á stofnunina til að hægt sé að fullnýta þau rými sem þegar eru til. „Það þarf ekki að byggja rými, þau standa þarna auð og ónotuð. Einnig þurfum við ekki á að halda sérhæfðu starfsfólki,“ segir sveitarstjórinn.

Íbúar bæjarins hafa mótmælt þessari skertu þjónustu og ályktuðu á íbúafundi í janúar að skora á þingmenn kjördæmisins að berjast fyrir því að tryggja fjármagn til reksturs heilbrigðisstofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×