Golf

Brooks Koepka óvæntur sigurvegari í Phoenix

Koepka gat leyft sér að brosa fyrir myndavélarnar í gær.
Koepka gat leyft sér að brosa fyrir myndavélarnar í gær. Getty
Mikil spenna einkenndi lokahringinn Phoenix Open sem kláraðist í gærkvöldi en það var Bandaríkjamaðurinn ungi, Brooks Koepka, sem sigraði mótið. Þetta er jafnframt fyrsti sigur hans í móti á PGA-mótaröðinni á ferlinum.

Fyrir hringinn leiddi skotinn Martin Laird með þremur höggum en margir sterkir kylfingar gerðu atlögu að honum á lokahringnum, meðal annars masters meistarinn Bubba Watson og japanski kylfingurinn Hideki Matsuyama.

Það var þó Koepka sem sigraði að lokum en hann lék lokahringinn á 66 höggum eða fimm undir pari. Hann lék hringina fjóra á 15 höggum undir pari en Watson, Matsuyama og Ryan Palmer enduðu einu höggi á eftir á 14 höggum undir pari.

Fyrir sigurinn fær Koepka rúmlega 120 milljónir króna ásamt keppnisrétt á PGA-mótaröðinni í tvö ár. Hann á eflaust eftir að fagna því enda hefur þessi efnilegi kylfingur spilað mikið á Áskorendamótaröðinni og Evrópumótaröðinni þar sem hann hefur hingað til ekki haft fullan þátttökurétt á PGA-mótaröðinni í heimalandinu.

Næsta mót á PGA-mótaröðinni er Farmers Insurance Open sem fram fer á hinum sögufræga Torrey Pines velli en þar taka nánast allir bestu kylfingar PGA-mótaraðarinnar þátt, meðal annars Tiger Woods og Dustin Johnson sem snýr til baka eftir langt hlé frá keppnisgolfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×