Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, lýsti á fundi með fréttamönnum í gær verulegum áhyggjum af ástandi flutningskerfis raforku í landinu á sama tíma og fyrirtækið fyndi fyrir miklum áhuga á auknum raforkukaupum:
„Eftirspurnin er meiri heldur en við ráðum við frá fjölbreyttum fyrirtækjum. Við þekkjum þessi kísilmálmfyrirtæki. Gagnaver eru í miklum vexti, fiskimjölsbræðslurnar eru að rafvæðast og svo erum við að sjá bara almenna notkun sem tengist á margan hátt ferðamennskunni,“ segir Hörður.
En það er ekki nóg að reisa og reka virkjanir. Það þarf að koma orkunni til kaupenda og þar stendur hnífurinn í kúnni, að mati Landsvirkjunarmanna.
„Byggðalínan er komin alveg að efri mörkum og það eru bara örfáir staðir á landinu í dag sem geta aukið raforkunotkun, sem er mikið áhyggjuefni held ég fyrir almenna atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni,“ segir Hörður og nefnir dæmi um atvinnurekstur:
„Það er til dæmis rafvæðing fiskimjölsbræðslanna á Austurlandi. Frekari uppbygging á Akureyri. Og svo mætti lengi telja.“
Þannig snertir þetta einnig umhverfisvernd; að rafmagn leysi af olíubrennslu í fiskimjölsverksmiðjum og skipum sem liggja í höfn.
„Til dæmis koma mikið af skemmtiferðaskipum á Akureyri. Það er útilokað að rafvæða þau, miðað við núverandi flutningskerfi.“
Og forstjórinn segist nánast þurfa að vísa öllum á stóriðjulóðir, eins og á Grundartanga.
„Menn verða að fara inn á þessa staði þar sem stóriðjan er í dag, ef menn ætla að nýta raforku, því tengingarnar eru ekki til staðar,“ segir Hörður Arnarson.
