Skoðun

Frelsi

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir skrifar
Merkilegt með minningar og af hverju ákveðnar minningar lifa með okkur ævina á enda. Ein af mínum minningum átti sér stað þegar við fjölskyldan vorum að horfa á vestrann í sjónvarpi allra landsmanna á laugardagskvöldi í upphafi níunda áratugarins. Ég man reyndar ekki hvaða vestri var til sýningar þetta kvöld, enda kvöldið svo sem ekki eftirminnilegt vegna bíómyndarinnar. Ég bjó úti á landi, þar sem dagarnir voru frekar fyrirsjáanlegir og gott ef ég hafði einmitt ekki gengið í Kaupfélagssjoppuna og keypt lítra af vanilluís og lítrakók í gleri til að njóta meðan við horfðum á myndina.

Líkt og tíðkaðist hjá Ríkisútvarpinu Sjónvarp á þeim tíma voru alltaf sendar út útvarpsfréttir frá miðnætti í lok sjónvarpsdagskrárinnar. Fréttirnar þetta kvöld voru meðal annars að leiðtoginn Ayatollah Khomeini, sem áður hafði tekist að steypa Íranskeisara af stóli og í kjölfarið stofna íslamskt lýðveldi, hvatti til heilags stríðs gagnvart þjóðum sem ekki studdu íslam.

Þar fremst í flokki voru Bandaríkin og Ísrael. Ég man eftir að hafa setið á gólfinu fyrir framan sjónvarpið og hlustað á þessar fréttir ásamt foreldrum mínum. Foreldrar mínir urðu miður sín, sögðu þetta líklega vera upphafið að ófriði sem óvíst væri hvernig færi. Þar sem ég sat, tæplega 10 ára barnið, man ég aðeins hina yfirgnæfandi óttatilfinningu sem varð til þess að ég gjörsamlega lamaðist. Óttinn átti rætur sínar að rekja til þess að ég upplifði hve miður sín foreldrar mínir voru og ég fann að þau vissu að hversu mikið sem þau myndu leggja á sig til að sjá til þess að ég myndi eiga gott líf, þá gætu valdamiklir menn og konur umturnað örygginu sem þau vildu veita mér og systrum mínum.

Ég skildi það ekki almennilega þá, en skil það núna að þarna var í gangi ófriður sem á rætur sínar að rekja til trúarbragða. Trúarbragðaófriður sem er ólíkur öðrum að því leyti að fólk réttlætir óréttlætanlegar gjörðir með því að þær séu framkvæmdar í skjóli trúar: Af því að Guð sagði það. Af því að Guð boðaði það.

Umburðarlyndi og samhygð

Sunnudagskvöldið 1. mars var gengin meðmælaganga með trúfrelsi að frumkvæði ungmenna sem starfa með Breytendum á adrenalíni í Laugarneskirkju. Ástæða þess að ungmennin fóru af stað var til að benda okkur, hinum fullorðnu fyrirmyndum þeirra, á að þau vilja skapa sér framtíð sem temur sér umburðarlyndi og samhygð í stað yfirgangs og árásargirni. Á samveruna var boðið öllum lífsskoðunar- og trúfélögum og þökkuðu allir boðið og flest tóku þátt á einn eða annan hátt. Meðmælagangan endaði í Laugarneskirkju þar sem ungmennin voru með tónlistaratriði milli þess sem Breytandi á adrenalíni, fulltrúar Siðmenntar og Félags múslima á Íslandi og allsherjargoði Ásatrúarfélagsins héldu örerindi. Allir sem voru á staðnum hlustuðu til að skilja og fundu fyrir samhygð og kærleika til náungans.

Fólkið sem þarna var samankomið kom vegna þess að það veit að til að breyta heiminum verðum við að byrja á okkur sjálfum. Hinir fullorðnu gerðu sér líka skýra grein fyrir því að þeir eru fyrirmyndir ungmenna um þá framtíð sem þau sjá fyrir sér. Þar sem ég sat þarna í kirkjunni minntist ég þess þegar ég, tíu ára gömul, lamaðist af ótta yfir því valdi sem menn telja sig hafa í skjóli trúar. Og ég skildi af hverju þessi minning hefur dvalið með mér öll þessi ár. Ástæðan er sú að ég er sannfærð um að meðmælagangan skapaði minningu sem gaf von í hjörtu ungmennanna um að vald kærleika og samhygðar getur breytt heiminum. Það byggir á því að við öll umgöngumst frelsi sem eitt af grundvallargildum samfélagsins.

Ástæðan er sú að frelsi er líka persónuleg tilfinning sem við finnum hið innra og sem fyllir okkur þeirri vissu að okkur er treyst fyrir okkur sjálfum. Að hafa frelsi til að trúa eða trúa ekki, að hafa frelsi til að elska og frelsi til að vera til. Þegar við virðum frelsi annarra til að elska, vera til og trúa eða trúa ekki, þá um leið viðurkennum við samferðafólk okkar og segjum við þau að þau eru merkileg og dýrmæt nákvæmlega eins og þau eru.




Skoðun

Sjá meira


×