Skoðun

Á lífið ekki lengur að njóta vafans?

Snorri Snorrason skrifar
Oft er rætt um fæðuöryggi, en hvað með lífið sjálft? Læknar og sérfræðingar innan heilbrigðiskerfisins telja að mínútur geti skipt sköpum milli lífs og dauða. Eigum við leikmennirnir ekki að treysta mati þeirra? Nálægð flugvallar og Landspítala – háskólasjúkrahúss skiptir hér höfuðmáli.

Einnig koma reglulega til landsins erlend læknateymi til þess að ná í líffæri, en þar skiptir tíminn og nálægð einnig verulegu máli. Er forgangsröðun í þjóðfélaginu að breytast? Eru byggingar komnar í fyrsta sæti og lífið í annað? Af hverju högum við málum með þessum hætti? Fólkið okkar á landsbyggðinni, er það í reynd annars flokks í hugum þeirra sem stjórna borginni? Þar er fólk sem kennir sig við jafnaðarmennsku, þá má spyrja eru sumir jafnari enn aðrir? Hvað veldur?

Undirritaður þurfti fyrir skömmu að fara á bráðamóttöku sjúkrahússins vegna veikinda. Þjónustu og umönnun, sem ég fékk er hægt að lýsa með orðinu 1. flokks í öllu tilliti. Við þessa dvöl mína, sem stóð yfir í sólahring, varð mér hugsað til þess öryggis sem við höfuðborgarbúar njótum. Eigum við ekki að sýna fólki á landsbyggðinni þá virðingu að líf þess njóta forgangs? Stjórnvöldum ber að skerast í leikinn og stöðva þá óheillaþróun sem á sér stað hjá borgaryfirvöldum, svo komið verði í veg fyrir stórt skipulagsslys.

Stjórnendur borgarinnar skilja ekki skyldur höfuðborgarinnar gagnvart landsbyggðinni. Undirskriftir sjötíu þúsund Íslendinga um veru Reykjavíkurflugvallar skipta þá engu máli. Látum lífið njóta vafans og setjum það í fyrsta sæti, þá mun vel fara fyrir íslenskri þjóð.




Skoðun

Sjá meira


×