Skoðun

Menntun – réttlátara samfélag

Ólafur Hjörtur Sigurjónsson skrifar
Vaxandi tekjumunur meðal þjóða heimsins hefur víðtæk áhrif á samfélag okkar og efnahag. Aukið misrétti veldur efnahagslegum samdrætti og helsta skýringin er sú að sá hluti samfélagsins sem stendur höllum fæti getur ekki fjárfest í menntun. Aðgerðir sem draga úr ójöfnuði skapa bæði réttlátara samfélag og sterkari efnahag. Þetta er meginniðurstaða í nýrri skýrslu frá OECD sem var birt 9. desember síðastliðinn. Vert er að hugleiða þetta vegna þess að ójöfnuður hefur gríðarleg áhrif á menntun og þar með lífsafkomu fólks.

Verulegur tekjuójöfnuður hefur mikil neikvæð áhrif á efnahag ríkja samkvæmt rannsóknum OECD. Hvernig getur staðið á þessu? Helsta skýringin er þessi: ójöfnuður hindrar að hæfni manna geti vaxið, tækifæri til menntunar minnka, hreyfanleiki einstaklinga minnkar. Ójöfnuður veldur tjóni til framtíðar vegna niðurbrots menntunar. En hvað segir þetta okkur? Aðgerðir sem draga úr ójöfnuði gera samfélagið ekki aðeins réttlátara heldur líka auðugra. Aðgerðirnar eru ekki eingöngu til þess að færa fjármagn milli hópa. Þetta snýst jafnframt um opinbera þjónustu fyrir alla aldurshópa, öflugt menntakerfi fyrir alla og gott heilbrigðiskerfi.

Menntun stuðlar að því að einstaklingur nær að þroska hæfileika sína og mannlega færni sem þátttakandi í samfélaginu. Hún er kjarninn í þroska einstaklinga og samfélaga. Markmið menntunar er að sérhvert okkar þroski hæfileika sína til fullnustu, örvi frumkvæði og nýsköpun og taki ábyrgð á eigin lífi, umhverfi og náttúru.

Þess vegna eigum við að tryggja að menntun sé aðgengileg öllum frá barnæsku til fullorðinsára án hindrana og íþyngjandi útgjalda. Höfum ávallt í huga að:

menntun skapar grunn jafnréttis í samfélögum

menntun er afar þýðingarmikil opinber þjónusta

menntun er ekki aðeins upplýsandi, heldur gerir hún fólki m.a. kleift að taka þátt í þjóðfélags- og efnahagsumbótum í samfélaginu

Ef við notum vitneskju okkar úr fyrirliggjandi skýrslum og rannsóknum um þau úrlausnarefni varðandi jöfnuð og menntun sem við nú stöndum frammi fyrir, getum við leyst úr ágreiningi og átökum, sigrast á fátækt og fáfræði, forðast mengun og eyðingu vistkerfa og stuðlað að réttlátara samfélagi fyrir okkur öll.




Skoðun

Sjá meira


×