Innlent

Löggan segir brandara og broskallarnir hrannast upp

Jakob Bjarnar skrifar
Facebookvinir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kútveltast margir svo fyndin og skemmtileg er löggan.
Facebookvinir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kútveltast margir svo fyndin og skemmtileg er löggan.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rekur Facebooksíðu, sem óvíst er hvaða tilgangi á að þjóna, því þar kennir ýmissa grasa: Er þetta upplýsingasíða eða liður í ímyndarsköpun lögreglunnar? Er við hæfi að lögreglan segi sjálf af sér fréttir?

En, slíkar spurningar eru ekki að flækjast fyrir þeim sem fylgjast með gangi mála á samskiptamiðlunum. Nú fyrir stundu var lögreglumaður sem stendur Facebookvaktina í brandarastuði og sagði gamansögu; Hafnfirðingabrandara, sem sem tengist sólmyrkvanum. Brandarinn hefur fallið í kramið, heldur betur, því margir hafa deilt brandaranum sem er svohljóðandi:

„Á tíunda tímanum í morgun hringdu á lögreglustöðina í Hafnarfirði skelfingu losnir íbúar þessa hýra Hafnarfjarðar sem hafa vanist því að horfa á móti sól. Á örskömmum tíma dró fyrir sólu og því eru íbúar þessa hýra bæjarfélags alls ekki vanir. Ekki er enn ljóst hvað olli þessu skammdegi en rannsókn málsins stendur enn yfir. Hafa allir starfsmenn rannsóknardeildarinnar unnið hörðum höndum við að reyna upplýsa málið en ekki er talið að um mannfall sé að ræða. Málið er litið mjög alvarlegum augum enda á það sér ekkert fordæmi að sólin láti ekki sjá sig hér í Hafnarfirði. Frekari upplýsinga er að vænta vonandi fljótlega.“

Facebookvinir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kútveltast margir hverjir af hlátrinum einum saman: „Bwahahahahaha...“ og broskallarnir hrannast inn á athugasemdasvæðið. Þegar hafa tæplega 100 manns deilt brandaranum og þúsund lýst yfir velþóknun sinni. Og samkvæmt því virðast margir kunna vel að meta þetta til þess að gera nýja hlutverk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×