Skoðun

Sykur- og sælgætisverslun ríkisins?

Benedikt Kristjánsson skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðargreiningar, skrifaði grein í Morgunblaðinu um hvernig það að selja áfengi í búðum jafngildi því að „níðast á þeim sem minna mega sín“. Ekki vissi ég hvað á mig stóð veðrið þegar ég las þetta. Það er nefnilega til rökvilla sem heitir „appeal to emotion“ eða „höfðað til tilfinninga“. Hún felst í því að viðkomandi reynir að höfða til tilfinninga fólks í stað rökhugsunar. Ég er ekki að segja að tilfinningar séu með öllu ómarktækar en þær eiga til að skerða dómgreindina.

Kári talar um að um 15% íslendinga hafa sótt sér hjálpar gegn áfengisvanda og það ber ekki að gera lítið úr því. En erum við virkilega að níðast á þeim sem minna mega sín með því að selja áfengi í búðum?

Sjálfur er ég alltof feitur og hef verið allt mitt líf. Ég á erfitt með vissar matartegundir, sérstaklega þegar kemur að sykri. Til eru rannsóknir sem sýna fram á það að sykur sé mjög vanabindandi og að fólk geti auðveldlega verið háð honum. Nú er stór hluti Íslendinga of feitir eða of þungir. Fylgikvillar eru m.a. sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómar og ásamt fleirum kvillum. Ég ætla ekki að setja samansemmerki á milli offitu og alkahólisma, en ef eitt skal yfir allt ganga, ætti ekki þá að vera Sykur- og sælgætisverslun ríkisins? Ef einhver myndi voga sér að leggja fram frumvarp þess efnis að það ætti að takmarka frjálsa sölu á sykruðum matvælum til að stemma stigu við offitu myndi sá hinn sami vera talinn haldinn fitufordómum, réttilega. Þið sjáið að þetta er tvær hliðar á sama peningnum.

Þegar ég labba inn kjörbúð og sé allar kræsingarnar, gosið og nammið, á ég þá að hugsa með mér „hvernig vogar búðareigandinn að níðast svona á mér“? Nei, ég ætla að bera ábyrgð á lífinu mínu.

Höfundur er heimspekingur.




Skoðun

Sjá meira


×