Innlent

Fiskalistaverk fjarlægð af Facebook eftir ásakanir um stuld

Bjarki Ármannsson skrifar
Grafískar teikningar Theodóru Mjallar virðast byggðar á náttúrulífsteikningum Jóns Baldurs Hliðberg.
Grafískar teikningar Theodóru Mjallar virðast byggðar á náttúrulífsteikningum Jóns Baldurs Hliðberg. Vísir
Lokað hefur verið fyrir Facebook-síðu hönnunarverkefnisins Fagur fiskur í sjó eftir ábendingar um að myndirnar virðist að miklu leyti byggðar á teikningum náttúrulífsteiknarans Jóns Baldurs Hlíðberg. Um er að ræða grafískar myndir af íslenskum fiskum eftir hönnuðinn Theodóru Mjöll Skúladóttur Jack.

Meðal annars benti einn notandi Facebook á líkindin milli verks Jóns Baldurs og myndaraðar Theodóru á Facebook-síðu verslunarinnar Epal. Epal hafði áður birt frétt á vef sínum um myndaröðina Fagur fiskur í sjó og spurt hvort áhugi væri fyrir því að myndirnar færu í sölu þar. Sú frétt hefur nú verið fjarlægð af vef Epals en myndirnar voru aldrei teknar í sölu.

Theodóra Mjöll vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því.

Samanburður á verkum Theodóru og teikningum Jóns Baldurs.Myndir/Af Facebook
Myndir margoft notaðar án leyfis

Aðspurður segist Jón Baldur þekkja myndirnar allar sem sínar eigin, þó búið sé að eiga við þær í tölvu. Flestar þeirra sé að finna í bókum sem komu út fyrir um þrjátíu árum síðan. Hann segist hafa sent Theodóru skilaboð vegna málsins á Facebook í gær, áður en síðan var tekin niður, en ekki fengið svar.

„Ég er svona að velta fyrir mér næstu skrefum,“ segir hann. „Það þýðir ekkert að standa í stríðsrekstri gagnvart vafalaust ágætu fólki sem verður á. Ég vona bara að hún hafi samband og við lögum þetta í sátt og samlyndi.“

Jón Baldur segist mjög oft verða var við það að myndir hans séu notaðar án leyfis, jafnvel í hundruð tilfellum á ári. Í langflestum tilfellum hafi þó sættir náðst fljótt og hann hafi aðeins einu sinni þurft að hafa samband við lögmann.

„Menn slysast stundum til að gera meira en þeir mega,“ segir Jón Baldur. „Það er mjög oft sem ég lendi í brotum sem eru bara skiljanlegur misskilningur eða slys. En ég hef lent í því núna í tvígang að myndir sem ég er höfundur að hafa verið fjölfaldaðar, lítið breyttar, og boðnar til sölu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×