Innlent

Verðmæti úr því sem af gengur

Svavar Hávarðsson skrifar
Hér sést yfir lækningalind Bláa lónsins, þróunarsetur fyrirtækisins og fjær orkuver HS Orku og Carbon Recycling Int. Undir rauðu þaki sést Northern Light Inn hótelið sem var byggt árið 1983 og er hluti af Auðlindagarðinum.
Hér sést yfir lækningalind Bláa lónsins, þróunarsetur fyrirtækisins og fjær orkuver HS Orku og Carbon Recycling Int. Undir rauðu þaki sést Northern Light Inn hótelið sem var byggt árið 1983 og er hluti af Auðlindagarðinum.
Þrátt fyrir að starfsemi Auðlindagarðsins, sem byggst hefur upp í kringum starfsemi HS Orku á Reykjanesi, sé ekki á allra vitorði þá er ljóst að hann leikur stórt hlutverk í atvinnu- og verðmætasköpun á Reykjanesi, og er eftirtektarverð stærð í heildarsamhengi verðmætasköpunar þjóðarbúsins. Hugmyndafræðilega er þessi þyrping fyrirtækja sennilega einstök á heimsvísu með samnýtingu auðlindarinnar sem jarðvarminn á svæðinu er.

Úrgangur sem auðlind

Allt ofangreint kom fram í máli fyrirlesara á ráðstefnu HS Orku og Bláa lónsins í gær þar sem til umfjöllunar var fjölþætt nýting jarðvarma á Reykjanesskaga undir merkjum Auðlindagarðsins – tveggja orkuvera HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi og fyrirtækja sem nýtt hafa afgangsstærðir við framleiðslu á rafmagni og heitu vatni til fjölbreyttrar framleiðslu. Þar ber auðvitað hæst orkuframleiðslu og ferðaþjónustu, en þar er einnig að finna sjávarútvegsfyrirtæki, nýsköpun í líftækni og endurnýjun orkugjafa. Þessa þyrpingu mynda níu fyrirtæki sem má segja að „nærist“ hvert á öðru – það sem fellur til við framleiðslu eins fyrirtækis nýtist því næsta til verðmætasköpunar.

Friðrik Már Baldursson
Krónur og aurar

Friðrik Már Baldursson hagfræðingur kynnti á fundinum skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins GAM Management (GAMMA) um stöðu, áhrif og möguleg tækifæri Auðlindagarðsins. Sagði hann Auðlindagarðinn sýnidæmi um það hvernig hægt er að standa að sjálfbærri nýtingu á hagkvæman hátt og í raun gjörnýta alla auðlindastrauma sem úr jarðvarmanum koma.

Eitt viðmiðið sem hægt er að skoða í því samhengi eru einfaldlega atvinna og krónur og aurar – svona þegar hugmyndaauðgi og framtaksemi eru sett til hliðar um stund, sagði Friðrik en þessi atvinnustarfsemi sem hér um ræðir hefur ekki notið teljandi athygli þegar þessar grunnstærðir eru gaumgæfðar, hvorki í samhengi samfélagsins á Reykjanesi né þjóðarhags.

Það liggur þó á borðinu að efnahagsleg áhrif garðsins í heild eru veruleg. Tekjur námu um 20,5 milljörðum króna árið 2013 eða um einu prósenti af vergri landsframleiðslu. Fljótt á litið er það lág tala en í samanburði sem allir þekkja er svo ekki. Framlag fiskveiða nam um 5,5 prósentum af landsframleiðslu sama ár og stóriðju um 2,3 prósentum. HS Orka og HS Veitur eru um 60 prósent af veltunni en Bláa lónið um fjórðungur. Önnur fyrirtæki skýra 16 prósent, en þar verður að hafa hugfast að þau fyrirtæki eru nýlega til komin og þær fjárfestingar eiga eftir að skila sér á næstu árum. Verðmætin sem verða til í starfseminni, rekstrarhagnaður og laun starfsmanna, eru um helmingur af veltu eða um 10 milljarðar á ári. Í því samhengi eru heildarfjárfestingar innan Auðlindagarðsins um 68 milljarðar króna og margt í pípunum.

2.000 störf tapast

Það er flestum kunnugt að Suðurnesin hafa orðið að þola þyngri áföll í atvinnulegu tilliti á undanförnum árum en aðrir landshlutar. Þessa staðreynd gerði Friðrik að umtalsefni í samhengi við uppgang Auðlindagarðsins, sem má finna stað frá hruni að allmiklu leyti. Það efnahagsástand sem myndaðist eftir 2008 var að mörgu leyti hagstætt fyrirtækjunum sem þar starfa, enda skapaði lægra raungengi góðar aðstæður fyrir útflutningsfyrirtæki eins og þau sem þar starfa.

Bein störf fyrirtækjanna eru rúmlega 500 talsins og losa þúsundið þegar afleidd störf eru meðtalin. Allt frá árinu 2006 hefur atvinnuleysi á Suðurnesjum verið að jafnaði þremur prósentum hærra en á landinu öllu. Fyrir það fyrsta er ljóst að vinnumarkaðurinn á Suðurnesjum hefur ekki náð að vinna úr brotthvarfi bandaríska hersins um miðjan síðasta áratug. Hitt er að hrunið 2008 kom sérstaklega illa við atvinnustarfsemi á Suðurnesjum, ekki síst vegna mikilvægis byggingar- og verktakastarfsemi sem lagðist að mestu af um skeið. Í þriðja lagi varð samdráttur í útgerð, og um sögu uppbyggingar í Helguvík þarf ekki að fjölyrða. Þetta þrennt varð þess valdandi að á þremur árum töpuðust tæplega 2.000 störf út úr hagkerfi Suðurnesja sem í allt telur um 11.000 störf. Vilji menn leggja þessa mælistiku á höfuðborgarsvæðið myndi það þýða 20.000 töpuð störf.

Þessi áföll eiga sér fá fordæmi í íslenskri hagsögu, er mat Friðriks. Hann bætti við að árið 2014 hefði störfum þá fjölgað um 1.700 síðan 2009. Megi áætla að tæplega eitt af hverjum fjórum nýjum störfum sem skapast hafa á Suðurnesjum hafi tengst Auðlindagarðinum með einum eða öðrum hætti og mikilvægi hans fyrir samfélagið þurfi að skoða í því ljósi.

Hvers er að vænta?

Í úttekt sinni lítur GAMMA líka til framtíðar. „Ég held að það sé ekki spurning um að hún er björt. Varan sem kemur frá starfseminni eru allt hlutir sem eru eftirsóttir og sú eftirspurn á bara eftir að aukast á næstu árum; græn orka, ferðaþjónusta, ýmiss konar eftirsóttar neysluvörur og vatn,“ sagði Friðrik og sló þann „varnagla“ að allt væri þetta háð sveiflum á raungengi en samdráttarskeiði á Vesturlöndum, og víða annars staðar, væri að ljúka svo eftirspurn ætti eftir að aukast ef eitthvað er. „Það eru næg tækifæri til uppbyggingar, innviðir og mannafli er til staðar. Fyrirhuguð fjárfesting á næstu árum er um 20 milljarðar króna. Allt virðist smella þarna saman og ástæða til bjartsýni hvað varðar uppbyggingu Auðlindagarðsins,“ sagði Friðrik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×