Erlent

Nýsjálendingar hafa valið fána til að keppa gegn núverandi fána

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vinningstillagan er hér neðst í hægra horninu.
Vinningstillagan er hér neðst í hægra horninu. Ríkisstjórn Nýja-Sjálands
Nýsjálendingar hafa gengið til atkvæða og kosið um hvaða fáni muni etja kappi gegn núverandi fána Nýja-Sjálands í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2016. Kosið var á milli fimm fána og munaði minna en einu prósenti á milli efstu tveggja fánanna.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru kunngjörðar fyrr í dag og fékk tillaga Kyle Lockwood flest atkvæði, alls 552.827. Líkt og sjá má hér til hliðar er um að ræða silfurburkna á bláum og svörtum grunni ásamt Suðurkrossinum sem allir ættu að kannast við af núverandi fána Nýja-Sjálands.

Vinningstillagan er stórglæsileg og er eftir Kyle Lockwood.Ríkisstjórn Nýja-Sjálands
Önnur tillaga Lockwood lenti í öðru sæti og aðeins munaði um 21 þúsund atkvæðum á henni og sigurtillögunni. Eins og sjá má hér fyrir neðan svipar henni mjög til vinningstilögunnar en silfurburkninn er á rauðum og bláum grunni.

Alls kusu um 1,5 milljón íbúar Nýja-Sjálands í atkvæðagreiðslunni en í landinu búa nú um 4,6 milljónir. Eftir á að telja utankjörfundaratkvæði sem gæti breytt niðurstöðunni vegna þess hversu mjótt er á munum. Í öllu falli mun þó Kyle Lockwood eiga vinningstillöguna.

Sjá einnig: Nefnd um nýjan þjóðfána Nýja-Sjálands skilar af sér

Tillagan sem lenti í öðru sæti, einnig eftir Kyle Lockwood.Ríkisstjórn Nýja-Sjálands
Vinningstillagan mun svo etja kappi gegn núverandi fána Nýja-Sjálands í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fer í mars á næsta ári. Fánanum þykir svipa mjög til ástralska fánans en þar eru stjörnurnar sex og hvítar að lit. Mörgum þykir einnig ekki við hæfi að hafa breska fánann á sínum eigin enda sé hann minnisvarði um nýlendutímann og kúgun sem því fylgdi.

Í sumar velti forsætisráðherra Nýja-Sjálands, John Key, upp þeim möguleika hvort að skipta ætti um fána. Í kjölfarið bárust 10.300 tillögur sem sérstök nefnd valdi úr fjórar tillögur. Einum fána var svo bætt sérstaklega við en nú liggja niðurstöðurnar fyrir og er afar spennandi að sjá hvort að Ný-Sjálendingar velji nýjan fána næsta vor.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×